Íslenski boltinn

Ólafur um 16-0 leikinn: Það var samið um úrslit leiksins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson var þjálfari Hauka áður en hann tók við Valsmönnum.
Ólafur Jóhannesson var þjálfari Hauka áður en hann tók við Valsmönnum. Vísir/Vilhelm
Ólafur Jóhannesson rifjaði upp fræg úrslit í leik í 1. deild karla árið 2013, þegar Víkingur Reykjavík vann Völsung, 16-0, í næstsíðustu umferð tímabilsins.

Svona tölur sjást ekki oft í íslenskum fótbolta, hvað þá í næstefstu deild á Íslandi. Ólafur er í viðtali í Návígi, þætti Gunnlaugs Jónssonar á Fótbolta.net, þar sem hann segir greinilegt að eitthvað óeðlilegt hafi verið við úrslit leiksins.

„Það er ljóst að það hefur eitthvað annað verið að baki. Ég veit það ekki en ég veit það samt,“ sagði Ólafur sem var þá þjálfari Hauka.

Fjölnir vann deildina þetta tímabilið á 43 stigum. Víkingur, Haukar og Grindavík komu næst með 42 stig en Víkingar komust upp með Fjölnismönnu á markatölu.

„Enda hefur Ólafur Þórðarson [þáverandi þjálfari Víkings] sagt að hann skildi ekki hvað var í gangi í þeim leik. Það hefur enginn blaðamaður þorað að fara í það. Kannski vegna þess að það hentar ekki,“ sagði Ólafur.

„Ég vil meina að það hafi verið buið að semja um þennan leik. Að einhverjir hafi verið búnir að semja um leikinn. Ég þori að standa við það,“ sagði Ólafur og bendir á framferði þeirra leikmanna sem fengu rauð spjöld í leiknum, þeirra Guðmundar Óla Steingrímssonar og Hrannars Björns Steingrímssonar.

„Tveir leikmenn Völsungs eru reknir af velli í seinni hálfleik. Annar þeirra fékk gult, sneri sér við og sagði dómaranum að halda kjafti eða eitthvað slíkt. Hvað hélt hann að myndi gerast þá? Þetta var ekkert eðlilegt,“ sagði Ólafur.

Hér má sjá leikskýrsluna úr leiknum á vef KSÍ.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×