Íslenski boltinn

Hrannar svarar Óla Jó: „Þetta er kjaftæði“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hrannar Björn Steingrímsson segir Ólaf Jóhannesson vera að fara með algjöra þvælu þegar hann heldur því fram að eitthvað gruggugt hafi verið á baki sigri Víkings R. á Völsungi árið 2013.

Ólafur sagði í þættinum Návígi á Fótbolta.net að „það er ljóst að það hefur eitthvað annað verið að baki. Ég veit það ekki en ég veit það samt.“ Ólafur var á þeim tíma þjálfari Hauka sem sátu eftir í 1. deildinni ásamt Grindavík með sárt ennið en Víkingur fór upp í efstu deild á markatölu eftir þennan 16-0 sigur.

Hrannar Björn, sem í dag leikur með KA en var leikmaður Völsungs á þessum tíma, var í viðtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X-inu 977 í dag.

„Þetta er argasta kjaftæði. Ég get ekki sagt mikið meira um það,“ sagði Hrannar um þessi orð sem hann, og flestir aðrir, túlka sem ásökun um veðmálasvindl.

Hjörtur spilaði þennan leik fyrir Víking og hann sagði að leikmennirnir í liðinu vissu vel að úrslit mótsins myndu ráðast á markatölu og því hafi þeir spilað til þess að sækja í 90. mínútur og slökuðu aldrei á. Þá tók hann fram að um ef eitthvað óheiðarlegt hefði verið að ræða í þessum leik þá hafi það aldrei verið borið undir hann.

Þá lýsti Hrannar aðstæðum innan Völsungs þar sem allt virtist vera í ljósum logum, félagið rekið í þrot og það hefði ekki komið svo mikið á óvart að liðið myndi tapa með slíkum mun.

„Án þess að gagnrýna of mikið þá sem voru með mér í þessu liði, þá hefði hópurinn seinni hlutan af mótinu getað fallið úr þriðju deild. Liðið var það slakt.“

„Að eitthvað veðmálsvindl hafi verið hjá mér, bróður mínum eða einhverjum öðrum er bara kjaftæði,“ sagði Hrannar.

Markmaðurinn sem var í markinu þennan dag spilaði sinn fyrsta og eina meistaraflokksleik, 16 ára að aldri, í þessum leik.

Ólafur gagnrýndi Hrannar og bróðir hans Guðmund Óla fyrir að láta reka sig útaf vísvitandi og Hjörtur sagði að hans upplifun hafi verið sú að þeir væru að sækjast eftir rauða spjaldinu.

„Ég get alveg sagt þér það að ég reyndi aldrei að fá rautt. Ég var ekki búinn að hugsa í leiknum að ég vildi láta reka mig út af. Það er ekki séns,“ sagði Hrannar Björn Steingrímsson.

Viðtal Hjartar við Hrannar má heyra í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×