Viðskipti innlent

Lögðu niður botnfiskvinnslu með drjúga launahækkun í vasanum

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda. Vísir/ANton
„Maður veltir því fyrir sér hvort þessi mikla hækkun endurspegli kannski bónus fyrir að hafa leitað hagræðingar hér og leggja næstum niður fyrirtæki með 100 ára sögu í bæjarfélaginu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Á sama tíma og HB Grandi ákvað í fyrra að leggja niður botnfiskvinnslu á Akranesi í hagræðingarskyni og segja upp nærri 90 manns höfðu mánaðarlaun forstjóra fyrirtækisins hækkað um 330 þúsund krónur milli ára. Þetta sést í nýjum ársreikningi HB Granda fyrir árið 2017.

Framkvæmdastjórum fjölgaði einnig milli ára úr sjö í átta og hækkuðu mánaðarlaun þeirra að meðaltali um hundrað þúsund krónur.

HB Grandi gerir upp í evrum og fékk forstjórinn Vilhjálmur Vilhjálmsson 421 þúsund evrur í árslaun í fyrra, samanborið við 349 þúsund evrur árið 2016. Miðað við meðalgengi evru þessi ár voru árslaun forstjórans 50,6 milljónir króna í fyrra, eða rúmar 4,2 milljónir á mánuði samanborið við 46,5 milljónir 2016, eða 3,87 milljónir á mánuði.

Vilhjálmur Birgisson háði harða baráttu í fyrra fyrir því að halda vinnslu HB Granda í bænum og störfum margra félagsmanna sinna.

„Þegar maður horfir á svona krónutöluhækkun, sem er 50 þúsund krónum hærri en lágmarkslaun á Íslandi, verður maður hugsi þegar maður situr hjá forstjórum sem segja við mann að leggja þurfi niður starfsemi því verið sé að leita allra leiða til að ná fram meiri hagræðingu. Hagræðingu sem gengur út á að fólk með jafnvel 40 ára starfsreynslu þurfti að horfa upp á lífsviðurværi sitt hverfa úr bænum. Þetta er því eilítið sorglegt og vekur reiði hjá manni.“




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×