Viðskipti innlent

Fyrsta Boeing 737 MAX þotan afhent Icelandair

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þotan TF-ICE komin í hendur starfsmanna Icelandair í Seattle í Bandaríkjunum.
Þotan TF-ICE komin í hendur starfsmanna Icelandair í Seattle í Bandaríkjunum. Mynd/Icelandair.
Icelandair hefur tekið við fyrstu Boeing 737 MAX þotunni, af þeim sextán, sem félagið hefur keypt. Myndir af því þegar fulltrúar Icelandair fengu þotuna afhenta frá Boeing-verksmiðjunum í Seattle í fyrradag hafa verið birtar á samfélagssíðum Icelandair. 

Boeing segir 737 MAX-vélina eyða 14% minna eldsneyti en okkur önnur farþegaþota með einum gangi og þakkar Icelandair fyrir að hafa valið hana.

Fulltrúar Icelandair og Boeing innsigluðu afhendingu þotunnar með því að klippa á borða.Mynd/Icelandair.
„Í dag var góður dagur! Við fengum opinberlega fyrstu Boeing 737 MAX þotuna okkar í Seattle og getum ekki verið spenntari með þessa nýju viðbót í flotann. Við hlökkum til að bjóða ykkur velkomin um borð,“ segir Icelandair. 

Flugmenn Icelandair eru nú með þotuna í æfingaflugi ytra en fljúga henni síðan heim til Íslands. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa félagsins, er áætlað að hún komi til landsins aðfararnótt mánudagsins 5. mars, en ekki er gert ráð fyrir móttökuathöfn þá.

Stefnt er að því að nýja þotan verði tilbúin til notkunar í apríl.Mynd/Icelandair.
Þotan, sem hlotið hefur skrásetninguna TF-ICE, verður innréttuð hjá Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Áætlað er að því verki verði lokið um miðjan apríl og þá er fyrirhugað að fagna því að vélin sé komin í flotann. Búast má við sýningarflugi og lendingu á Reykjavíkurflugvelli.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×