Innlent

Sólríkur dagur framundan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dagurinn verður kaldur en sólríkur sunnan heiða.
Dagurinn verður kaldur en sólríkur sunnan heiða. Vísir/Ernir
Útlit er fyrir norðaustan- og norðanátt á landinu í dag. Þá er búist við éljum norðan- og austanlands en sólríkum degi sunnan heiða. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þrátt fyrir að sólin skíni verður norðan næðingurinn kaldur svo um er að ræða „ekta gluggaveður.“ Einhverjir staðir á landinu munu þó njóta nokkurs skjóls frá vindi, þar á meðal stór hluti höfuðborgarsvæðisins.

Þá er fremur kalt á landinu og er almennt nokkurra stiga frost á flestum stöðum. Einnig er vert að athuga að sól er farin að hækka á lofti og fer þá að örla á dægursveiflu í hita. Því er ekki loku fyrir það skotið að hiti gægist upp fyrir frostmark með suðurströndinni yfir hádaginn.

Veður mun breytast lítið næstu daga en voldug hæð er yfir Grænlandi sem situr fastast og beinir áfram til okkar kaldri norðanátt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Norðaustan og norðan 8-15 m/s. Él norðan- og austanlands, en víða léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 7 stig. 

Á þriðjudag:

Norðaustan 8-13 m/s. Él með norður- og austurströndinni og snjókoma um tíma syðst á landinu, annars þurrt að kalla. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum NA-lands. 

Á miðvikudag og fimmtudag:

Norðaustlæg átt og kalt í veðri. Dálítil él á Norðaustur- og Austurlandi, en léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert.

Á föstudag:

Útlit fyrir svipað veður áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×