Erlent

Hóta aðgerðum taki Bandaríkin þátt í heræfingu Suður Kóreu

Birgir Olgeirsson skrifar
Kim Jong un leiðtogi Norður Kóreu.
Kim Jong un leiðtogi Norður Kóreu. Vísir/Getty
Norður Kóreumenn hafa hótað að svara fyrir sig ef Bandaríkin munu halda sameiginlega heræfingu með Suður Kóreu. Greint er frá þessu á vef Reuters  en þar segir að allar hugsanlegar viðræður við Bandaríkin séu út af borðin af hálfu Norður Kóreumanna verði af æfingunni.

Þessar heræfingar eru fyrirhugaðar í apríl næstkomandi.

„Ef Bandaríkin láta loks verða af sameiginlegri heræfingu og halda áfram viðskiptaþvingunum á Norður Kóreu, þá mun Norður Kórea svara Bandaríkjunum og munu bandarísk yfirvöld bera alla ábyrgð á þeim afleiðingum,“ hefur Reuters eftir fréttaveitu Norður Kóreu, KCNA.

Þar er því haldið fram að þessar fyrirhugðu æfingar munu skaða allar tilraunir til sátta á Kóreuskaganum.

23. febrúar síðastliðinn kynntu Bandaríkin hertar viðskiptaþvinganir á Norður Kóreu með það að markmiði að fá yfirvöld í Norður Kóreu til að láta af kjarnorkuvopnatilraunum sínum.

Yfirvöld í Norður Kóreu hafa gagnrýnt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, harðlega vegna þessara þvinganna. Erindreki Norður Kóreu átti  fund með forseta Suður Kóreu í kringum lokahátíð Vetrarólympíuleikanna þar í landi í síðasta á mánuði. Voru færðar fregnir af því að erindreki Norður Kóreu hefði tilkynnt á þeim fundi að Norður Kóreumenn væru reiðubúnir til viðræðna við Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×