Erlent

Fjórir lögreglumenn í haldi vegna hvarfs Ítala

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Mennirnir hurfu í Tecalitlán í Jaliscohéraði.
Mennirnir hurfu í Tecalitlán í Jaliscohéraði. Vísir/AFP
Fjórir lögreglumenn eru nú í haldi í Mexíkó en þeir eru grunaðir um aðild að hvarfi þriggja Ítala þar í landi. The Guardian greinir frá.

Mennirnir sáust síðast 31. janúar í Tecalitlán í Jaliscohéraði. Ríkisstjórinn í Jalisco segir að lögreglumennirnir hafi játað að hafa afhent glæpagengi mennina. Lögreglumennirnir eiga að hafa handtekið þá horfnu á bensínstöð nærri Tecalitlán.

Síðast heyrðist í þeim Raffaele Russo, Antonio Russo og Vincenzo Cimmino í gegnum samskiptaforritið Whatsapp. Þá sendi Raffaele ættingjum sínum að lögreglumenn hafi komið að þeim á bensínstöð. Talið er að mennirnir hafi verið staddir í Mexíkó til að selja varning frá Kína. Ríkissaksóknari í Jalisco segir að mennirnir þrír hafi til að mynda selt ódýrar landbúnaðarvörur en markaðssett þær eins og um hágæða vörur væri að ræða.

Sonur eins mannana sagði í viðtali að Ítalirnir hafi verið seldir glæpagengi fyrir 43 evrur en stjórnvöld hafa ekki staðfest þær upplýsingar. Svæðinu er stjórnað af Jalisco New Generation glæpagenginu sem er eitt valdamesta glæpagengi landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×