Innlent

Grunur um að þjófar hafi verið sendir gegn vilja sínum hingað til lands af glæpahópum

Birgir Olgeirsson skrifar
Alls hefur lögreglan 60 innbrot á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar sem hafa átt sér stað undanfarna  mánuði.
Alls hefur lögreglan 60 innbrot á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar sem hafa átt sér stað undanfarna mánuði. Vísir/Getty
Rannsókn á innbrotahrinunni á höfuðborgarsvæðinu snýr einnig að mansali. Þetta sagði Karl Steinar Valsson, tengslafulltrúi Íslands hjá Europol, í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

Greint var frá því í liðinni viku að fjórir hefðu verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald vegna rannsóknar lögreglunnar á innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan hafði hendur í hári tveggja manna að morgni þriðjudags eftir að ábending barst frá árvökulum nágranna í Garðabæ um grunsamlegar mannaferðir.

Um svipað leyti og gæsluvarðhaldsúrskurður yfir mönnunum lá fyrir síðdegis á þriðjudag barst tilkynning um annað innbrot í Hafnarfirði. Þeir sem stóðu að því innbroti voru handteknir og úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald á miðvikudag en við húsleit fannst þýfi, skartgripir og peningar, upp á nokkrar milljónir króna. Lögreglan sagði í samtali við Vísi í síðustu viku að mennirnir væru allir erlendir ríkisborgarar.

Alls hefur lögreglan 60 innbrot á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar sem hafa átt sér stað undanfarna mánuði.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá því í kvöld að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði óskað eftir því að bakgrunnur mannanna yrði kannaður.

Karl Steinar sagði við RÚV að grunur væri um að mennirnir fjórir sem eru í gæsluvarðhaldi tengist glæpahópum í Evrópu og að þeir hafi jafnvel verið sendir hingað til lands gegn vilja sínum. Sagði Karl Steinar að einn hinna handteknu væri sautján ára gamall og að talið væri líklegt að fleiri innbrotshópar hefðu verið sendir hingað til lands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×