Innlent

Stærsti hani Íslands er sex kíló

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Haninn Jón hinn stóri.
Haninn Jón hinn stóri. Magnús Hlynur Hreiðarsson
Stærsti hani Íslands er engin smásmíði, sex kíló að þyngd og aðeins sex mánaða gamall. Haninn heitir Jón hinn stóri og er staðsettur í hænsnakofa í Flóanum í Brandshúsum hjá Ragnari Sigurjónssyni, hænsnabónda.

Ragnar er með töluvert úrval af hænum og hönum á lóðinni heima hjá sér, papa hænur, íslenskar hænur og íslenskar landnámshænur. Einn af hönunum vekur sérstaka athygli en það er hani sem er risa hani og mjög líklega stærsti hani Íslands.

„Hann kemur úr markvissri ræktun hjá mér og það endaði með því að ég fékk einn svona stóran. Þetta er ég búin að reyna í nokkurn tíma, það er bara svona sem maður prufar sig í ræktun til að sjá hvað maður getur og hvað maður kann, það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt“, segir Ragnar.

Ragnar segir að Jón hinn stóri éti á við tvo fugla. Hann er orðinn sex kíló, eða helmingi þyngri en hinn hefðbundni íslenski hani sem er um þrjú kíló. En hvort er skemmtilegra að vera með hænur eða hana ?

„Hænurnar, þeir eru miklu skemmtilegri, ég er miklu meira fyrir stelpurnar, það er bara þannig“, bætir Ragnar við. Hann segir að hanar geti orðið sjö til 10 ára gamlir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×