Erlent

Flókinn kapall framundan á Ítalíu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Enginn flokkur eða bandalag hlaut afgerandi kosningu í gær.
Enginn flokkur eða bandalag hlaut afgerandi kosningu í gær. Vísir/Getty
Svo virðist sem Ítalir þurfi að klambra saman samsteypustjórn eftir þingkosningar sem fram fóru í landinu í gær. Ef marka má útgönguspár virðast hægri- og þjóðernisflokkar hafa notið mestrar hylli.

Allt stefnir þannig í að hægriflokkabandalag fyrrverandi forsætisráðherrans Silvio Berlusconi, Forza Italia, hljóti flest þingsæti. Búist er við að bandalagið hljóti á bilinu 248 til 268 sæti, sem þó er töluvert frá þeim 316 sætum sem þarf til að mynda meirihluta á ítalska þinginu.

Fimmstjörnuhreyfingin, sem stofnuð var af grínistanum Beppe Grillo, er hins vegar stærsti einstaki flokkurinn að loknum kosningunum. Fimmstjarnan berst fyrir auknu beinu lýðræði, verndun umhverfisins og hefur efasemdir um samstarf við Evrópu.

Sjá einnig: Stefnir í óvissu og óreiðu eftir ítölsku þingkosningarnar

Formaður Fimmstjörnuhreyfingarinnar sem og formaður Forza Italia hafa þvertekið fyrir samstarf að kosningunum loknum.

Stjórnmálagreinendur gera því ráð fyrir að framundan séu erfiðar stjórnarmyndunarviðræður sem gæti tekið vikur að leysa. Það sé þó alltaf möguleiki á að blása til nýrra kosninga. Hvort það skili skýrari niðurstöðum verður þó að teljast ólíklegt.

Ítölsk stjórnmál hafa lengi verið flókin og sveiflukennd. Skýrasta dæmi þess er að frá stríðslokum hafa 65 ríkisstjórnir farið með tögl og hagldir í landinu.

Ítalega greiningu Vísis á ítölsku kosningunum má nálgast hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×