Körfubolti

Gríska fríkið óstöðvandi í sigri Bucks | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Giannis Antetokounmpo er magnaður.
Giannis Antetokounmpo er magnaður. vísir/getty
Milwaukee Bucks vann glæsilegan endurkomusigur á  Philadelphia 76ers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 118-110, en liðið var mest 20 stigum undir í leiknum.

Bucks varð í nótt fyrsta liðið sem nær að vinna 76ers eftir að lenda meira en fimmtán stigum undir frá því að Oklahoma City gerði það í byrjun mars fyrir þremur árum síðan.

Gríska fríkið, Giannis Antetokounmpo, tók leikinn yfir í seinni hálfleik og skoraði fjórtán af 35 stigum sínum í þriðja leikhluta auk þess sem hann tók níu fráköst í heildina og gaf sjö stoðsendingar.

Eric Bledsoe hjálpaði til með 22 stigum en Bucks náði með sigrinum að binda endahnút á fjögurra leikja taphrinu liðsins sem er í sjöunda sæti austurdeildarinnar.

Dario Saric var manna bestur í liði gestanna með 25 stig og miðherjinn magnaði Joel Embiid skoraði 19 stig og tók að auki átta fráköst.

Annars var lítið að frétta úr NBA í nótt þar sem öll helstu liðin og stjörnurnar slökuðu á fyrir framan imbakassann. Victor Oladipo skoraði 33 stig í sigri Indiana gegn Washington og Jrue Holiday skoraði 30 stig í stórsigri Pelicans á Mavericks.

Úrslit næturinnar:

Atlanta Hawks - Phoenix Suns 113-112

Toronto Raptors - Charlotte Hornets 103-98

Washington Wizards - Indiana Pacers 95-98

Dallas Mavericks - New Orleans Pelicans 109-126

Milwaukee Bucks - Philadelphia 76ers - 118-110

LA Clippers - Brooklyn Nets 123-120

Sacramento Kings - NY Knicks 102-99

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×