Golf

Mickelson vann sitt fyrsta mót í fjögur ár eftir bráðabana | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Phil Mickelson var kampakátur í gærkvöldi.
Phil Mickelson var kampakátur í gærkvöldi. vísir/getty

Bandaríski kylfingurinn Phil Mickelson stóð uppi sem sigurvegari á WGC-mótinu í gærkvöldi eftir bráðabana gegn Justin Thomas en mótið er hluti af PGA-mótaröðinni.

Lokahringurinn var magnaður en Thomas kláraði fyrstur af þeim sem var líklegur til sigurs á 16 höggum undir pari. Hann var á fjórtán höggum undir pari þegar kom að öðru högginu á átjándu og síðustu holunni.

Thomas átti þá algjört draumahögg sem fór rétt yfir holuna en rúllaði til baka ofan í holuna fyrir erni og Bandaríkjamaðurinn mættur í hús á 16 höggum undir pari. Þá átti Phil Mickelson enn þá slatta eftir.Mickelson, sem varð í gær elsti maðurinn til að vinna WGC-mót 47 ára að aldri, var kominn á 16 högg undir pari áður en kom að lokaholunni þar sem hann átti ekki gott högg inn á flöt. Hann kláraði hana á pari og fór í bráðabana við Thomas.

Á 17. flötinni í bráðabananum tókst Justin Thomas ekki að bjarga pari og ætlaði allt um koll að keyra þegar að hinn vinsæli Phil Mickelson vann sitt fyrsta mót í fjögur ár en hann var búinn að spila 96 mót án þess að vinna sigur.

„Þessi sigur skiptir miklu máli. Ég get eiginlega ekki lýst þessu eftir alla þessa erfiðu tíma undanfarin fjögur ár. Það hefur verið erfitt að komast aftur á þennan stall en loksins tókst það og það skiptir mig máli,“ sagði auðmjúkur Phil Mickelson að sigri loknum.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.