Enski boltinn

Messan: Botninum náð hjá Wenger sem verður rekinn í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki tókst Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, að róa stuðningmenn liðsins um helgina eftir tvö slæm töp á móti Manchester City á innan við einni viku.

Skytturnar tóku nefnilega upp á því að tapa fyrir nýliðum Brighton & Hove Albion, 2-1, en Arsenal-liðið var alveg skelfilega dapurt í fyrri hálfleik og þá sérstaklega markvörðurinn Petr Cech sem gaf bæði mörkin.

Arsenal á nú engan séns á því að ná Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni en liðið getur enn komist þangað með því að vinna Evrópudeildina. Mikið þarf þó að gerast hjá Skyttunum sem eru alveg hörmulegar þessa dagana.

„Mér fannst botninum náð í dag. Ég hef ekki áður séð þá svona lélega. Ég sá leikinn á móti Östersund sem var mjög lélegur, en þessar fyrstu 40 mínútur á móti Brighton var það allra versta sem ég hef séð,“ sagði Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur, í Messunni á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

Ríkharð Óskar Guðnason, sem stýrði þættinum í gær, velti upp þeirri spurningu hvort Wenger gæti hreinlega verið rekinn á næstu dögum eftir þessa hörmulegu viku.

„Ekki á þessu tímabili. Það er ekki að fara að gerast, en ég held að það verði þannig bundið um hnútana að hann verði látinn hætta eftir tímabilið. Ég held að það sé algjörlega klárt. Hann verður ekki rekinn á þessari leiktíð samt,“ sagði Reynir Leósson.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×