Enski boltinn

Messan: Þetta var bara vandræðalegt hjá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Messan tók fyrir leik Manchester City og Chelsea og þar var bæði farið yfir sigurmark Manchester City sem og taktík Chelsea liðsins í leiknum.

Hjörvar Hafliðason kenndi Thibaut Courtois, markverði Chelsea, meðal annars um markið sem Manchester City skoraði og tók þá fyrir fótavinnu og staðsetningu Courtois og bar það saman við þá hjá David de Gea, markverði Manchester United. Það er óhætt að segja að þar hafi Courtois ekki komið vel út.

„Af hverju stendur Courtois fyrir utan markið og af hverju þarf hann að standa svona mikið á nærstönginni? Það er þessi klaufalega fótavinna yfir á fjærstöngina sem veldur því að boltinn fer inn því þetta er ekkert skot auðvitað hjá Bernardo Silva,“ sagði Hjövar Hafliðason og bætti við: „Það hefði verið svo auðvelt fyrir alvöru markmann að koma í veg fyrir þetta,“ sagði Hjörvar.

„Ætla þeir ekki að reyna að jafna eða er eitthvað plan. Þeir héldu bara áfram að liggja,“ sagði Ríkharð Guðnason um viðbrögð Chelsea eftir að Manchester City komst.

Reynir Leósson hafði líka skoðun á leikstíl Chelsea-liðsins og þá sérstaklega eftir að liðið lenti undir og þurfti að fara gera eitthvað til að fá eitthvað út úr leiknum.

„Þetta getur maður alveg skilið í stöðunni 0-0. Það er erfitt að fara gegn City og ætla að sækja mikið. Þetta finnst mér í rauninni vandræðalegt. Talandi um það að þetta eru meistarar frá síðustu leiktíð, lendir undir í þeirri stöðu sem þeir eru í,“ sagði Reynir og bætti við:

„Þeir þurfa á stigum að halda til að ná inn í Meistaradeildina sem er grunnkrafa hjá liðinu. Mér þykir þetta bara vandræðalegur leikur hjá þeim. Þeir brutu leikinn aldrei upp í seinni hálfleik og áttu skilið að tapa þessum leik,“ sagði Reynir.

Það má sjá alla umfjöllun Messunnar um leikstíl og markvörslu Chelsea í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×