Handbolti

Arnór leggur skóna á hilluna í sumar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór í landsleik gegn Dönum.
Arnór í landsleik gegn Dönum. vísir/getty
Landsliðsmaðurinn Arnór Atlason hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í sumar eftir gifturíkan feril. Hann tekur í leiðinni við nýju starfi hjá Álaborg.

Arnór hefur nefnilega skrifað undir tveggja ára samning við félagið og mun hann sinna starfi aðstoðarþjálfara. Hann verður Stefan Madsen til halds og trausts en Madsen hefur verið ráðinn aðalþjálfari í stað Arons Kristjánssonar sem hættir í sumar.

Arnór hefur verið einn besti handknattleiksmaður þjóðarinnar í áraraðir og er hluti af gullkynslóðinni sem vann silfur á ÓL í Peking árið 2008 og svo silfur á EM í Austurríki tveimur árum síðar.

Meiðsli hafa oft gert honum erfitt fyrir en hann er að hætta þó svo hann sé aðeins 33 ára gamall.

Á glæstum ferli fyrir landsliðið lék Arnór rúmlega 200 leiki fyrir Ísland.

Hann er uppalinn hjá KA en fór í atvinnumennskuna árið 2004 er hann samdi við Magdeburg í Þýskalandi sem þá var þjálfað af Alfreð Gíslasyni. Eftir tvö ár þar fór hann til FCK í Danmörku og árið 2010 varð FCK að ofurliðinu AG þar sem Arnór var fyrirliði. Það ævintýri entist í tvö ár.

Þá fór Arnór aftur til Þýskalands og spilaði með stórliði Flensburg í eina leiktíð. Þaðan lá leiðin til St. Raphael í Frakklandi þar sem Arnór spilaði í þrjú ár. Árið 2016 fór hann svo til Álaborgar þar sem hann mun nú ljúka ferli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×