Handbolti

Arnór: Finn að ég var að taka rétta ákvörðun

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór fagnar eftir leik á silfurævintýrinu í Peking.
Arnór fagnar eftir leik á silfurævintýrinu í Peking. vísir/getty

Það verða tímamót í íslenskri handboltasögu í sumar er einn af dáðustu handboltasonum þjóðarinnar, Arnór Atlason, leggur skóna á hilluna eftir glæsilegan feril.

Það var tilkynnt fyrr í dag að Arnór hefði verið ráðinn aðstoðarþjálfari danska liðsins Álaborg sem hann spilar með í dag. Arnór mun því leggja handboltaskónum eftir tímabilið og skella sér í þjálfarabúninginn.

„Það er ekki langt síðan ég ákvað þetta. Kannski tvær vikur en ég tek þessa ákvörðun í kjölfar þess að mér er boðin þessi þjálfarastaða. Í raun fann ég strax að ég var mjög spenntur fyrir þessu og til í að hætta í leiðinni. Ég skil ótrúlega sáttur við þetta og það er engin biturð eða neitt slíkt,“ segir Arnór en hann var með leikmannasamning fram á sumarið 2019 og þurfti því ekkert að hætta strax.

„Ég vildi bara einbeita mér að öðru hvoru og því ákveð ég að hætta fyrst ég fékk þetta tækifæri. Ég verð 34 ára í sumar og þetta er orðið fínt. Þetta eru komin fjórtán ár í atvinnumennskunni hjá mér og er mjög sáttur við minn feril. Ég er ánægðastur með hvað mér þykir þetta vera rétt ákvörðun. Við fjölskyldan erum mjög ánægð í Álaborg það er frábært að fá tækifæri til þess að hefja minn þjálfaraferil hér. Ég finn að ég er að taka rétta ákvörðun. Það er ágætt að þú sért að spyrja af hverju ég sé að hætta í stað þess að spyrja af hverju ég sé ekki löngu hættur.“

Arnór fagnar meistaratitli með AG ásamt Snorra Steini Guðjónssyni. Hann er búinn að vinna ófáa titlana í Danmörku. magnus arnason

Leyndur draumur að rætast

Akureyringurinn viðkunnalegi hefur aldrei gefið það út opinberlega áður að hugurinn stefni í þjálfun. Hann viðurkennir þó að hafa dreymt um það í svolítinn tíma þó svo hann hafi ekki verið að básúna því um stræti og torg.

„Þetta var alltaf bakvið eyrað og í raun aldrei yfirlýst markmið. Ég hef verið spenntur fyrir þessu án þess að segja frá því. Svo þegar tækifærið kom ákvað ég að grípa það. Það er því svolítið leyndur draumur að rætast,“ segir Arnór en faðir hans, Atli Hilmarsson, náði flottum árangri sem þjálfari á sínum ferli.

„Ég ætla að prófa þetta en svo kannski kemur í ljós að þetta sé ekkert fyrir mig. Hér fæ ég tvö ár til þess að komast að því. Ég er spenntur fyrir þessari áskorun.“


Ætlaði að hætta í landsliðinu

Það er ekki langt þangað til skórnir fljúga upp í hilluna en ljóst að Arnór hefur spilað sinn síðasta landsleik. Hann var með landsliðinu á EM í Króatíu og lék síðustu landsliðsmínúturnar þar.

„Maður er farinn að hugsa um endalokin. Ég var að spila mína síðustu leiki í Meistaradeildinni og þetta er að síast inn. Vonandi næ ég að klára tímabilið ágætlega og berjast um titil í vor. Ég var líka búinn að ákveða að hætta með landsliðinu áður en ég tók þessa ákvörðun að ganga alla leið og leggja skóna á hilluna.“

Það verður mikill sjónarsviptir af þessum magnaða leikmanni. Þær eru ófáar stundirnar þar sem hann steig upp í leikjum landsliðsins, lagði allt undir þó svo hann væri kannski að spila hálfmeiddur. Aldrei var kvartað heldur barist til síðasta blóðdropa.

Það var ekki bara með landsliðinu þar sem Arnór náði flottum árangri því hann raðaði inn titlum með FCK og ofurliði AG. Svo varð hann meistari með Álaborg í fyrra. Þess utan lék hann með þýsku stórliðunum Magdeburg og Flensburg sem og með franska liðinu St. Raphael.

Arnór í leik með Flensburg. vísir/getty

Þykir vænst um tímann með landsliðinu

„Ég á margar hlýjar minningar og sérstaklega með landsliðinu. Að vera í liði með þessum strákum var einstakt og manni þykir vænst um medalíurnar sem unnust með landsliðinu. Bæði með A-landsliðinu og svo Evrópumeistaratitilinn sem vannst með unglingalandsliðinu,“ segir Arnór kátur er hann hugsar hlýlega til allra góðu tímanna. Hann spilaði yfir 200 landsleiki fyrir Ísland.

„Ég hef verið heppinn með skemmtilegan feril og hefði ekki viljað gera neitt öðruvísi. Hef spilað með skemmtilegum liðum og hef fengið út úr þessu það sem ég vildi fá út úr þessu. Ég hefði vissulega viljað skipta einhverjum silfurmedalíum út fyrir gullmedalíu en það er eins og það er.“

Frakkland var einn af áfangastöðum Arnórs þar sem hann lék með St. Raphael. Hann er hér í Evrópuleik gegn Haukum. vísir/Stefán

Ævintýri í Köben

Arnór var lengi í Kaupmannahöfn með FCK og AG þar sem hann var fyrirliði beggja liða sem náðu mögnuðum árangri. Það er tími sem hann gleymir seint.

„Það var skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Sérstaklega var tíminn lærdómsríkur er AG fór á hausinn. Ég var þá nýbúinn að skrifa undir þriggja ára samning við AG, konan komin 38 vikur á leið og ég á Ólympíuleikunum er fréttirnar um gjaldþrotið koma. Við ætluðum að vera í Köben að eilífu og það var því högg. Þetta var rússíbani sem gleymist seint. Ég hefði samt ekki viljað missa af honum frekar en öðru á mínum ferli.“


Gleymir ekki rótunum

Það er ekki bara atvinnumannaferillinn sem Arnór er þakklátur fyrir. Hann er líka þakklátur fyrir öll árin í KA þar á undan.

„Maður man alltaf hvaðan maður kom og ég man tímann í KA alveg ótrúlega vel. Ég hef verið að tala við KA-menn og það kitlaði helling að koma heim og hjálpa félaginu í þeirri uppbyggingu sem nú er í gangi,“ segir KA-maðurinn sem verður þó aðeins 36 ára er þjálfarasamningurinn við Álaborg klárast.

„Ég mun sennilega ekki taka fram skóna þá,“ segir Arnór hlær við.

Arnór á ÓL í London árið 2012. vísir/getty

Fórnfýsin beit hann í rassinn

Fórnfýsi hans og harka hefur verið eitt af hans aðalsmerkjum. Í óteljandi skipti hefur hann bitið á jaxlinn og hjálpað sínum liðum þó svo hann væri langt frá því að vera heill heilsu.

„Ég spilaði oft þegar ég átti ekki að vera að spila og staðan á mínum líkama er því kannski verri en hjá mörgum 33 ára gömlum handboltamönnum. Það hefur verið að bíta mig í rassgatið á seinni árum. Þetta hefur samt verið frábært og ég er mjög sáttur við þetta allt saman.“


Tengdar fréttir

Arnór leggur skóna á hilluna í sumar

Landsliðsmaðurinn Arnór Atlason hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í sumar eftir gifturíkan feril. Hann tekur í leiðinni við nýju starfi hjá Álaborg.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.