Erlent

Tókst ekki að koma öllum neyðar­gögnum inn í Austur-Ghouta

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Almennir borgarar í Austur-Ghouta sjást hér í kringum bílalest Sameinuðu þjóðanna sem kom inn á svæðið með neyðargögn í dag.
Almennir borgarar í Austur-Ghouta sjást hér í kringum bílalest Sameinuðu þjóðanna sem kom inn á svæðið með neyðargögn í dag. vísir/ap
Ekki tókst að koma öllum neyðargögnum inn í Austur-Ghouta í dag en bílalest frá Sameinuðu þjóðunum sem flutti neyðargögn inn á stríðshrjáð svæðið þurfti frá að hverfa í miðri sprengjuárás.

Að því er fram kemur í frétt BBC átti eftir að tæma um 10 bíla af meira en 40 trukkum sem fóru inn á svæðið með hjálpargögn á borð við mat og lyf. Aðgerðasinnar segja að tugir manns hafi látist í sprengjuárásum Sýrlandshers á Austur-Ghouta í dag þrátt fyrir vopnahlé sem standa átti í fimm tíma sem Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, hefur lofað að skuli vera daglega.

Sameinuðu þjóðirnar segja að þær hafi farið með eins mikið af neyðargögnum inn á svæðið og þær gátu en íbúar Austur-Ghouta búi við hræðilegt ástand. Að minnsta 719 manns hafa látið lífið í loftárásum Sýrlandshers síðustu vikur en svæðið er á valdi uppreisnarmanna.

Fulltrúi frá Alþjóðaheilbrigðisstofnunni sagði við fréttamenn Reuters að sýrlenskir embættismenn hefðu tekið um 70 prósent af sjúkravörum úr bílalestinni áður en hún fór inn til Austur-Ghouta þar sem sýrlensk stjórnvöld vilja ekki að uppreisnarmenn fái læknisþjónustu.

Bashar al-Assad, Sýrlandsforseti, ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi í gær. Þar sagði hann að stríðið gegn hryðjuverkum ætti að halda áfram og sagði að fréttaflutningur af hræðilegu ástandi í Austur-Ghouta sem almennir líða fyrir væru fáránleg lygi.

Assad kvaðst styðja daglegu vopnahléin til þess að meirihluti þeirra sem eru í Austur-Ghouta gætu þá flúið hryðjuverkamennina, eins og forsetinn kallar uppreisnarmennina.

Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt árásir Sýrlandshers og segja að Rússar, helstu bandamenn Assad og hans manna, hafi myrt saklausa borgara.


Tengdar fréttir

Vonar bara og biður að guð verndi börnin sín

Fyrstu almennu borgararnir í Austur-Ghouta hafa flúið í daglegu átakahléi. Erindrekar SÞ eru öskuillir út í báðar fylkingar. Krefjast tafarlausrar innleiðingar vopnahlés. Segja fimm klukkustundir ekki duga til að koma aðstoð til þurfandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×