Skoðun

Viljum við byggja 9 milljarða minnismerki um bankahrunið?

Björn B. Björnsson skrifar
Landsbanki Íslands er hlutafélag í eigu almennings og ber að hafa hagsmuni eigenda sinna í fyrirrúmi. Núverandi stjórnendur bankans hafa því miður misst sjónar á þessari staðreynd við ákvörðun um framtíðarhúsnæði bankans.

1. Það þjónar ekki hagsmunum almennings að reisa gríðarstóra bankabyggingu á lóðinni við hlið Hörpu. Fyrirhuguð bygging er ferhyrndur steinkassi sem mun skyggja á Hörpu og þrengja að Arnarhóli. Ekki skal efast um þörf fyrir nýjar höfuðstöðvar, en stjórnendur bankans segja sjálfir að nokkrar aðrar lóðir komi til greina. Best færi á að þessi lóð væri lögð undir torg eða almenningsgarð, en ef við viljum byggja þarna hljóta hús fyrir Náttúruminjasafnið, Listaháskólann eða Stjórnarráðið að vera mun framar í röðinni en banki, út frá hagsmunum almennings.

2. Það þjónar ekki hagsmunum almennings að Landsbankinn byggi miklu stærra hús en hann hefur þörf fyrir. Bankastjórinn segir að störfum í bankanum muni fækka mjög í framtíðinni en sú framtíðarsýn er með öllu gleymd þegar kemur að hönnun á aðalstöðvum bankans upp á 10 þúsund fermetra. Til viðbótar ætlar bankinn að stækka húsið um 6.500 fermetra til að selja eða leigja – í samkeppni við viðskiptavini sína.

3. Það þjónar ekki hagsmunum almennings að banki í okkar eigu eyði 9 milljörðum í þessa of stóru og of dýru byggingu. Reikna má með að sá hluti húsnæðisins sem bankinn ætlar ekki að nota kosti um 3 milljarða. Ég fullyrði að eigendur bankans vilji frekar nota þá peninga í vegi og spítala en verslanir og veitingahús í miðborg Reykjavíkur.

4. Það þjónar ekki hagsmunum almennings að halda upp á 10 ára afmæli bankahrunsins með því að nota milljarða af almannafé í uppblásna bankabyggingu í miðborginni. Úr því að stjórnendur bankans eru svona úr takti við tímann verðum við að ætlast til þess að fjármálaráðherra – sem fer með hlutabréf bankans í umboði almennings – stoppi þessa vitleysu.

Höfundur er áhugamaður um aðhald í opinberum rekstri




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×