Erlent

Barnabrúðkaupum fækkað stórkostlega á örfáum árum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Aukin menntun stúlkna hefur skipt sköpum.
Aukin menntun stúlkna hefur skipt sköpum. Vísir/Getty
Samkvæmt útreikningum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Unicef, hefur verið komið í veg fyrir um 25 milljón barnabrúðkaup síðastliðinn áratug. Ein af hverjum fimm stúlkum ganga nú í hjónaband fyrir 18 ára aldur en hlutfall þeirra fyrir tíu árum síðan var um 25 prósent.

Unicef segir að fækkunin hafi verið mest í ríkjum Suðaustur-Asíu, til að mynda á Indlandi þar sem aukin menntun stúlkna og vitundarvakning um hættur barnabrúðkaupa hefur skipt sköpum.

Stofnunin segir að ástandið sé í dag hvað verst í Afríku en þrátt fyrir það hefur náðst góður árangur víða í álfunni. Ekki síst í Eþíópíu þar sem barnabrúðkaupum hefur fækkað um þriðjung. Engu að síður fara um þriðjungur allra barnabrúðkaupa í heiminum fram í ríkjum sunnan Sahara.

Haft er eftir Anju Malhotra, aðalráðgjafa Unicef í kynjamálum, á vef breska ríkisútvarpsins að í ljósi þeirra áhrifa sem barnabrúðkaup hafa á ungar stúlkur þá sé öll fækkun af hinu góða. Hins vegar sé ljóst að alþjóðasamfélagið eigi enn mikið verk að vinna.

„Þegar stúlkur eru neyddar í hjónabörn svona ungar þá hefur það óafturkræf áhrif á þær til lífstíðar. Líkurnar á því að þær klári nám minnka á meðan líkurnar á því að þær séu misnotaðar og þjáist á meðgöngunni aukast,“ segir Malhotra.

Þjóðarleiðtogar hafa einsett sér að útrýma barnabrúðkaupum fyrir árið 2030, sem hluti af Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×