Enski boltinn

Það tók Mourinho sex ár á Englandi og tæplega 300 leiki að afreka það sem hann gerði í gær

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sjáðu, þetta er að takast!
Sjáðu, þetta er að takast! vísir/getty
Nemanja Matic var hetja Manchester United í gærkvöldi þegar að hann tryggði liðinu frábæran endurkomusigur gegn Crystal Palace, 3-2, í ensku úrvalsdeildinni.

United lenti 2-0 undir á 48. mínútu en Chris Smalling kom gestunum á bragðið á 55. mínútu og Romelu Lukaku jafnaði svo metin áður en Serbinn tryggði United sigurinn með frábæru skoti fyrir utan teig.

Með sigrinum endurheimti United annað sæti deildarinnar sem er það eina sem liðin fyrir neðan Manchester City geta barist um þessa leiktíðina en lærisveinar Pep Guardiola eru með afgerandi forskot í deildinni.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur afrekað margt og mikið á sínum ferli, hvort sem það er á Englandi, á Spáni, á Ítalíu eða í Portúgal.

Það sem hann upplifði í gær hefur hann aftur á móti, ótrúlegt en satt, aldrei afrekað í ensku úrvalsdeildinni. Ekki einu sinni á hans glæsta stjóraferli hafði liðum hans á Englandi - Chelsea og Manchester United - tekist að vinna leik eftir að lenda 2-0 undir.

Mourinho er búin að vera í ensku úrvalsdeildinni í um sex leiktíðir samtals með Chelsea og Manchester United og vinna fjölda titla en þetta átti hann eftir að sjá gerast hjá sínu liði.

Alls höfðu lið Mourinho í ensku úrvalsdeildinni lent 21 sinni 2-0 undir og náðu þau best jafntefli tvisvar sinnum en töpuðu 19 af þessum leikjum. Loksins tókst þetta svo í gærkvöldi.

Leikurinn í gær var sá 278. í röðinni hjá Mourinho í ensku úrvalsdeildinni en hann stýrði fyrst Chelsea árið 2004 og vann deildina á fyrsta ári.


Tengdar fréttir

„Barnalegt mark“ sem breytti öllu

Knattspyrnustjóri Manchester United, Jose Mourinho, var langt frá því að vera sáttur í leikslok þrátt fyrir sigur sinna manna gegn Crystal Palace í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×