Sport

„Svo margir dagar þar sem ég átti erfitt með að halda mér gangandi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams.
Serena Williams. Vísir/Getty
Serena Williams, besta tenniskonan allra tíma, er að koma sér aftur af stað eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn. Fæðing dóttur hennar reyndi mikið á hana og hún viðurkennir að það hafi verið mjög erfitt að komast sér aftur af stað í tennisinum.

Serena Williams mun keppa á Indian Wells WTA mótinu í Kaliforníu í þessari viku en um tíma leit út fyrir að hún kæmi ekki aftur í tennis. Þetta verður fyrsta mótið hennar í endurkomunni.

„Þetta er búið að vera erfitt,“ sagði Serena Williams í viðtali við BBC.





 „Það hafa verið svo margir dagar þar sem ég átti erfitt með að halda mér gangandi,“ sagði Serena.

Serena er 36 ára gömul og eignaðist dóttur sína Alexis Olympia Ohanian 1.september síðastliðinn. Hún hafði áður sett nýtt met með því að vinna 23 risamót á sigursælum ferli sínum.

„Það hefur því verið mjög erfitt um að halda sér gangandi og ég veit að ég er ekki komin í mitt besta form en ég nálgast það. Hver dagur er nýr dagur og og á hverjum degi ætti ég að geta orðið betri,“ sagði Serena.

„Svo framarlega sem ég er á leiðinni áfram og að bæta mig þá er mér sama þótt að ég fari á skjaldbökuhraða,“ sagði Serena.





Serena tók þátt í sýningarleik í Abú Dabí í lok desember og spilaði tvíliðaleik fyrir bandaríska landsliðið í Fed bikarnum í síðasta mánuði. Í þessari viku reynir hún hinsvegar við fyrsta mótið.

„Ég er tilbúin því annars væri ég ekki hérna. Ef ég er ekki tilbúin núna þá verð ég aldrei tilbúin. Ég verð samt miklu betri eftir tvo mánuði en einhvers staðar verður maður að byrja. Ég er búin að fá nóg af því að fylgjast með á hliðarlínunni og hugsa um það að byrja aftur,“ sagði Serena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×