Körfubolti

Jón Halldór um Keflavíkurliðið: „Þetta eru aumingjar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Keflavík bauð upp á skammarlega frammistöðu í 21. umferð Domino´s-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi þegar að liðið tapaði með 32 stiga mun, 99-67, fyrir Stjörnunni í Ásgarði í Garðabæ.

Keflavík virtist aðeins of sátt með að vera búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og mætti aldrei til leiks þrátt fyrir að geta lyft sér upp í sjöunda sætið með sigri og komið í veg fyrir að mæta deildarmeisturunum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Frammistaða Keflavíkurliðsins endurspeglaðist í skoti sem Guðmundur Jónsson, fyrirliði liðsins, tók beint eftir leikhlé Friðriks Inga Rúnarssonar þegar fjórar mínútur og 20 sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta.

Keflavík var aðeins búið að skora fjögur stig og lagði Friðrik Ingi upp sókn til að koma sínum mönnum í gang. Guðmundur hafði aðrar hugmyndir og reyndi galið þriggja stiga skot af löngu færi sem klikkaði.

Jón Halldór Eðvaldsson, sérfræðingur Domino´s-Körfuboltakvölds, er mikill Keflvíkingur en hans menn fengu heldur betur að heyra það í þætti gærkvöldsins eftir þessa frammistöðu. Þar var ekkert skafað utan af hlutunum.

„Ég veit ekki hversu mikið ég má segja núna. Þeir eru með hausinn á sér langt upp í rassgatinu á sér þegar að þeir koma út úr þessu leikhléi. Menn fara inn á og eru bara með allt aðrar hugmyndir en þjálfarinn sem er búinn að vinna einhverja tugi titla og vera í þessu í 100 ár,“ sagði Jón Halldór bálreiður.

„Gummi er yndislegur maður. Mér þykir ofboðslega vænt um hann, en það er stundum eins og að hann sé með hausinn á sér... já. En það er ekki bara hann. Keflavíkurliðið er með tvo erlenda leikmenn, Hörð Axel, Guðmund Jónsson, Magnús Má, Ragnar Bragason, Daða Lár og fleiri leikmenn. Þetta eru aumingjar. Aumingjar!“

„Ég var að koma heim frá útlöndum og ég fæ þetta helvítis rugl í andlitið,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×