Erlent

Rússar segjast ekkert vita um veikindi fyrrverandi njósnara

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn gæta heimilis Skripal í Salisbury.
Lögreglumenn gæta heimilis Skripal í Salisbury. Vísir/Getty
Breska lögreglan reynir nú að komast til botns í því hvaða efni olli skyndilegum veikindum rússnesks fyrrverandi njósnara og dóttur hans í Salisbury á sunnudag. Rússnesk stjórnvöld segjast tilbúin að leggja rannsókninni lið en þau hafi engar upplýsingar um hvað olli veikindunum.

Grunur leikur á að Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu Skripal hafi verið byrlað einhvers konar eitur. Þau fundust meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í Salisbury í Wiltshire í suðurhluta Englands um helgina. Engir sjáanlegir áverkar voru á þeim. Þau liggja nú þungt haldin á sjúkrahúsi.

„Við fylgjumst með þessum sorglegu aðstæðum en við höfum engar upplýsingar um hvað hefði getað leitt til þessa, hvað hann var að gera,“ segir Dmitrí Peskov, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands.

Skripal var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir njósnir í þágu Breta í Rússlandi árið 2006. Honum var sleppt fjórum áður síðar og veitt hæli á Bretlandi.

Uppákoman nú hefur vakið upp minningar um dauða Alexanders Litvinenko, rússnesks andófsmanns og fyrrverandi leyniþjónustmanns. Talið er að útsendarar Pútín hafi eitrað fyrir honum með geislavirku efni árið 2006.

Breskir embættismenn segja hins vegar að of snemmt sé að segja hvort eitthvað svipað sé uppi á teningnum nú, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×