Enski boltinn

Leikmenn United virðast ekki þurfa að skipta úr þessari gráu treyju í hálfleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ryan Giggs í gráa búningnum fræga á móti Southampton og þeim bláa sem hann klæddist í seinni hálfleik. Lukaku er sáttur í gráu.
Ryan Giggs í gráa búningnum fræga á móti Southampton og þeim bláa sem hann klæddist í seinni hálfleik. Lukaku er sáttur í gráu. vísir/getty
Manchester United vann Crystal Palace, 3-2, í mögnuðum leik á Selhurst Park í Lundúnum í gærkvöldi en United kom til baka eftir að lenda 2-0 undir í seinni hálfleik.

Þetta var í fyrsta sinn í fimm ár sem United-liðið kemur til baka og vinnur leik eftir að lenda 2-0 undir og í fyrsta sinn í sögu Mourinho í ensku úrvalsdeildinni sem lið hans vinnur leik eftir að lenda tveimur mörkum undir.

Í sögulegu samhengi er sigurinn athygliverður hjá Manchester United því það er nú búið að vinna báða leiki sína í deildinni þar sem það hefur klæðst nýrri grárri þriðju treyju liðsins sem var tekin í gagnið fyrir tímabilið.

Það er tveimur sigrum meira en í fjórum og hálfum leik síðast þegar liðið spilaði í gráu tímabilið 1995/1996. Þá safnaði United, undir stjórn Sir Alex Fergusons, aðeins einu stigi í fimm leikjum í gráu.

Fjórum og hálfum spyr einhver sem kannast ekki við söguna?

Jú, Sir Alex gafst upp á gráu treyjunni í hálfleik á móti Southampton 13. apríl 1996 þegar að liðið var 3-0 undir. Hann lét sína stráka skipta í bláar og hvítar varatreyjur liðsins en það skilaði þó ekki sigri. United hefur ekki spilað í gráu síðan.

Þrátt fyrir slæmt gengi í gráu stóð United uppi sem Englandsmeistari þetta tímabilið en það var sektað um 10.000 pund fyrir að skipta um búning. Sir Alex sagði að aldrei hefði hann eytt jafnmiklum pening í jafnverðugt málefni.

Gráa treyjan var valin af stuðningsmönnum fyrir tímabilið og á að tákna tengslin á milli þeirra og félagsins. Á treyjunni er skuggamynd af styttunni af heilögu þrenningunni; Sir Bobby Charlton, Denis Law og George Best, sem stendur fyrir utan Old Trafford.

Manchester United vann einnig Jóhann Berg Guðmundsson og félaga hans í Burnley klæddir í grátt en Anthony Martial skoraði sigurmarkið í þeim leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×