Innlent

Vantraust á dómsmálaráðherra rætt á Alþingi í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. VÍSIR/ANTON BRINK

Tillaga Samfylkingarinnar og Pírata um vantraust á Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, verður tekin fyrir á Alþingi í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, fundaði með þingflokksformönnum flokkanna á þingi í hádeginu í dag og var þetta niðurstaða fundarins að því er fram kemur á vef RÚV.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en tillagan var send inn til Alþingis skömmu fyrir miðnætti í gær.

Í tilkynningu frá Alþingi segir að umræðan um tillöguna hefjist klukkan 16:30 og er fyrirkomulag umræðna eftirfarandi:

Flokkur framsögumanns fær 15 mínútur

Flokkur ráðherra fær 15 mínútur

Aðrir þingflokkar fá 12 mínútur

Allir þingflokkar fá 3 mínútur í lok umræðunnar.

Ræðutíma hvers þingflokks má skipta milli þingmanna hans.

Almennt er reiknað með að hver þingflokkur hafi tvo ræðumenn     í almennum umræðunum og verði þeim raðað í tvær umferðir.

Samfylking hefur umræðuna, en Píratar eru fyrstir í síðari umferð.

Atkvæðagreiðsla:

Umræðan stendur þá í röskar tvær klukkustundir og korter; atkvæðagreiðsla gæti hafist rétt fyrir kl. 19.

Vantrauststillagan er lögð fram vegna Landsréttarmálsins svokallaða en í desember komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með skipan fimmtán dómara við Landsrétt.

Var ríkið dæmt til að greiða miskabætur til tveggja umsækjenda af fjórum sem voru á meðal þeirra fimmtán sem dómnefnd mat hæfasta en ráðherra skipti út fyrir aðra þegar kom að því að skipa í réttinn. Hinir umsækjendurnir tveir sem einnig var skipt út hafa líka höfðað mál gegn ríkinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Telur að hún hafi stuðning þingsins

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segist ávallt fagna því að geta rætt sín störf en Samfylkingin og Píratar hafa lagt fram vantrauststillögu á ráðherrann vegna Landsréttarmálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×