Erlent

Norður-Kóreumenn segjast reiðubúnir að hætta kjarnorkutilraunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Chung Eui-yong, þjóðaröryggisráðgjafi Suður-Kóreu, takast í hendur á fundi í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, í gær.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Chung Eui-yong, þjóðaröryggisráðgjafi Suður-Kóreu, takast í hendur á fundi í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, í gær.
Stjórnvöld Kóreuríkjanna hafa komið sér saman um að halda leiðtogafund í apríl, að því er fram kom í máli Chung Eui-yong, þjóðaröryggisráðgjafa forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in. BBC greinir frá.

Fundurinn verður haldinn á landamærum ríkjanna en hann er enn fremur sá fyrsti sinnar tegundar í rúman árátug. Þá er þetta einnig fyrsti leiðtogafundur ríkjanna sem haldinn er síðan Kim Jong-un tók við völdum í Norður-Kóreu.

Chung Eui-yong sagði enn fremur að yfirvöld í Norður-Kóreu væru tilbúin til að ræða afvopnun ríkisins en tíðar kjarnorkuvopnatilraunir yfirvalda hafa valdið miklum usla á alþjóðavettvangi. Kim Jong-un sagði viðræður um kjarnorkuafvopnun geta hafist, að því gefnu að öryggi Norður-Kóreu yrði tryggt.

Bandaríkin hafa lýst því yfir að stjórnvöld þar í landi muni ekki ræða við Norður-Kóreu nema hin síðarnefndu láti af kjarnorkuvopnatilraunum sínum. Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um viðræður ríkjanna á Twitter-reikningi sínum í gær.

„Heimurinn fylgist með og bíður! Þetta gæti verið falsvon en Bandaríkin eru tilbúin til að fara alla leið í hvora áttina sem er,“ skrifaði Trump.

Þíða hefur verið í samskiptum Norður- og Suður-Kóreu undanfarið í kjölfar vetrarólympíuleika sem haldnir voru í Suður-Kóreu. Löndin tvö tóku meðal annars þátt undir sama fána á leikunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×