Erlent

Norður-Kóreumenn segjast reiðubúnir að hætta kjarnorkutilraunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Chung Eui-yong, þjóðaröryggisráðgjafi Suður-Kóreu, takast í hendur á fundi í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, í gær.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Chung Eui-yong, þjóðaröryggisráðgjafi Suður-Kóreu, takast í hendur á fundi í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, í gær.

Stjórnvöld Kóreuríkjanna hafa komið sér saman um að halda leiðtogafund í apríl, að því er fram kom í máli Chung Eui-yong, þjóðaröryggisráðgjafa forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in. BBC greinir frá.

Fundurinn verður haldinn á landamærum ríkjanna en hann er enn fremur sá fyrsti sinnar tegundar í rúman árátug. Þá er þetta einnig fyrsti leiðtogafundur ríkjanna sem haldinn er síðan Kim Jong-un tók við völdum í Norður-Kóreu.

Chung Eui-yong sagði enn fremur að yfirvöld í Norður-Kóreu væru tilbúin til að ræða afvopnun ríkisins en tíðar kjarnorkuvopnatilraunir yfirvalda hafa valdið miklum usla á alþjóðavettvangi. Kim Jong-un sagði viðræður um kjarnorkuafvopnun geta hafist, að því gefnu að öryggi Norður-Kóreu yrði tryggt.

Bandaríkin hafa lýst því yfir að stjórnvöld þar í landi muni ekki ræða við Norður-Kóreu nema hin síðarnefndu láti af kjarnorkuvopnatilraunum sínum. Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um viðræður ríkjanna á Twitter-reikningi sínum í gær.„Heimurinn fylgist með og bíður! Þetta gæti verið falsvon en Bandaríkin eru tilbúin til að fara alla leið í hvora áttina sem er,“ skrifaði Trump.

Þíða hefur verið í samskiptum Norður- og Suður-Kóreu undanfarið í kjölfar vetrarólympíuleika sem haldnir voru í Suður-Kóreu. Löndin tvö tóku meðal annars þátt undir sama fána á leikunum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.