Erlent

Trump segist ekki hafa áhyggjur af afskiptum Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist ekki hafa áhyggjur af afskiptum Rússa af þingkosningum í Bandaríkjunum í ár. Hann segir að Bandaríkin muni bregðast við öllu því sem Rússar geri, þrátt fyrir að leyniþjónustur Bandaríkjanna segir afskipti þeirra þegar vera hafin og að Michael S. Rogers, yfirmaður NSA, hafi sagt þingmönnum nýverið að hann gæti ekki brugðist við án skipanar frá Trump og að slík skipun hefði ekki borist.

Þetta sagði Trump á blaðamannafundi með Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. Aðspurður hvað Svíar gætu lært af afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum sagði Trump, án nokkurra sannana, að afskiptin hefðu engin áhrif haft á niðurstöður kosninganna.

„En svo sannarlega voru afskipti. Örugglega voru líka afskipti frá öðrum ríkjum og jafnvel öðrum einstaklingum. Ég held að þið þurfið að fylgjast náið með. Þú vilt ekki að kerfinu sé spillt á nokkurn hátt og við munum ekki leyfa því að gerast. Við erum að rannsaka þetta náið og erum að fá góðar uppástungur fyrir 2018 kosningarnar,“ sagði Trump og hélt áfram.

„Ég held að við munum standa okkur mjög vel í 18 kosningunum. Þrátt fyrir að áður hafi aðrir í Hvíta húsinu verið með dýfu en ég held að við munum standa okkur vel því efnahagurinn er svo góður. Af því að við erum að vernda störfin okkar, eins og, það er loksins verið að vernda störfin okkar. Eins og við erum að gera með tollana. En stóri hluturinn er skattalækkunin og fækkun reglna. Líka dómararnir. Við erum með frábæra dómara. Gorsuch í Hæstaréttinum og margir, margir dómarar eru að setjast í dómarasæti víða um landið. Svo ég held að við munum standa okkur vel.“Leyniþjónustur Bandaríkjanna segja Rússa hafa beitt samfélagsmiðlum og fölskum fréttum til að hafa áhrif á forsetakosningarnar 2016 og ýta undir framboð Donald Trump. Andstæðingar forsetans hafa gagnrýnt hann harðlega fyrir aðgerðarleysi vegna afskipta Rússa og sakað hann um að gera ekkert til að koma í veg fyrir þau.

Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg

Dan Coats, yfirmaður njósnamála í Bandaríkjunum sagði þingmönnum í dag að verið væri að vinna í leiðum til að koma í veg fyrir afskipti Rússa en hann hefur ítrekað varað við því að þau afskipti væru þegar hafin á samfélagsmiðlum og víðar.

Hann sagði Hvíta húsið fylgjast náið með og að málið væri hátt á forgangslista þeirra. Sömuleiðis sagði hann að verið væri að grípa til aðgerða, án þess þó að fara nánar út í það.


Tengdar fréttir

Öryggisheimild tengdasonarins afturkölluð

Jared Kushner, tengdasonur Donald Trump og einn af hans helstu ráðgjöfum, fær ekki lengur aðgang að háleynilegum skjölum og gögnum í starfi sínu, eftir að öryggisheimild hans var lækkuð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.