Enski boltinn

Cardiff nálgast toppsætið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Daði í leik með Reading.
Jón Daði í leik með Reading. vísir/getty
Öll Íslendingaliðin í ensku 1. deildinni voru í eldlínunni í kvöld. Cardiff nálgast topplið Wolves, sem á þó leik til góða.

Velska liðið vann Barnsley á heimavelli sínum 2-1 eftir að hafa komist í forystu þökk sé mörkum frá Callum Paterson og Marko Grujic. Eftir mark Oli McBurnie fyrir Barnsley var pressan á heimamönnum sem náðu að halda hana út og ná í sinn fimmta sigur í röð.

Aron Einar Gunnarsson er enn utan hópsins hjá Cardiff eftir að hafa gengist undir aðgerð á fæti.

Á hinum enda töflunnar varð Reading af mikilvægum stigum þegar liðið gerði jafntefli við Bolton sem eru í fallbaráttunni með þeim.

Jón Daði Böðvarsson kom inn á 73. mínútu í stöðunni 1-1 en náði ekki að skora sigurmark fyrir Reading. Liðið er fimm stigum frá fallsæti eftir 35 leiki.

Hörður Björgvin Magnússon var í byrjunarliði Bristol City en var látinn víkja á 64. mínútu í stöðunni 1-0 fyrir gestgjöfunum í Preston North End.

Famara Diedhiou skoraði jöfnunarmark Bristol aðeins þremur mínútum eftir að Hörður Björgvin fór af velli. Það dugði þó ekki til því varamaðurinn Sean Maguire skoraði sigurmark PNE aðeins tveimur mínútum seinna, á 69. mínútu.

Birkir Bjarnason fékk ekkert að koma við sögu í 3-0 útisigri Aston Villa á Sunderland. Villa er í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir Cardiff. Bristol er dottið úr umspilssæti, niður í það sjöunda, stigi á eftir Middlesbrough.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×