Erlent

Klámmyndaleikkonan kærir Trump

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stormy Daniels segist hafa átt í kynferðislegu sambandi með núverandi Bandaríkjaforseta árið 2006.
Stormy Daniels segist hafa átt í kynferðislegu sambandi með núverandi Bandaríkjaforseta árið 2006. Vísir/Getty

Klámmyndaleikkonan og leikstjórinn Stormy Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford, hefur kært Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna þessa að hún telur að hið umtalaða þagnarsamkomulag þeirra sé dautt og ómerkt.

Fréttir af samkomulaginu voru fyrirferðamiklar í upphafi árs en lögmaður Bandaríkjaforseta er sagður hafa greitt Clifford 130 þúsund dali, skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016, svo hún segði ekki frá kynlífi hennar með forsetanum árið 2006. Trump og Melania Trump gengu í það heilaga árið 2005. Hvíta húsið hefur ætíð þvertekið fyrir að þetta sé satt.

Lögmaður forsetans, Michael Cohen, viðurkenndi hins vegar í febrúar að hafa greitt klámmyndaleikkonunni umrædda upphæð. Hann hefur þó ekki viljað segja neitt um það hvers vegna hann greiddi henni rúmlega 13 milljónir króna.

Clifford hefur því ákveðið að láta reyna á lögmæti samkomulagsins. Fjölmiðlar vestanhafs greina nú frá því að hún hafi ákveðið að kæra forsetann vegna málsins því hún segir að Trump hafi sjálfur aldrei formlega skrifað undir samkomulagið. Það hafi því aldrei tekið gildi.

Sjá einnig: Stormy Daniels frjálst að ræða samband sitt við Trump

Í kærunni segir Clifford að greiðsla lögmannsins hafi verið til þess fallin að hræða hana til að halda sér saman um málið. Hún hefur þó tjáð sig um samband þeirra áður á opinberu vettvangi. Það gerði hún til að mynda í samtali við glanstímaritið InTouch árið 2011, 5 árum fyrir undirritun samkomulagsins og 5 árum eftir að hún og auðkýfingurinn sváfu saman - að hennar sögn. Á þeim tíma sem kynlíf þeirra á að hafa átt sér stað var Melania, eiginkona Donalds, nýlega búin að fæða drenginn Barron, yngsta son þeirra hjóna.

Samband þeirra Trump og Clifford komst svo aftur í hámæli í janúar síðastliðnum þegar Wall Street Journal greindi frá þagnarsamkomulaginu. Klámmyndaleikkonan mun þá hafa átt í viðræðum við forsvarsmenn ABC sjónvarpsstöðvarinnar um að koma fram og segja frá framhjáhaldinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.