Erlent

Óvæntar skuldir sprengdu samningaviðræðurnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Harvey Weinstein komst upp með að áreita og beita konur kynferðislegu ofbeldi um áratugaskeið óáreittur.
Harvey Weinstein komst upp með að áreita og beita konur kynferðislegu ofbeldi um áratugaskeið óáreittur. VÍSIR/AFP

Tilraunir til að bjarga framleiðslufyrirtækinu The Weinstein Company frá gjaldþroti runnu út í sandinn á ögurstundu.



Vísir greindi frá því á dögunum að athafnakonan Maria Contreras-Sweet færi fyrir hópi fjárfesta sem ætlaði sér að kaupa allar eignir fyrirtækisins. Það hefur átt erfitt uppdráttar eftir að sögur af kynferðisbrotum stofnanda fyrirtækisins, kvikmyndaframleiðandands Harvey Weinstein, heltóku umræðuna vestanhafs undir lok síðasta árs.



Nú er hins vegar komið í ljós að fjárfestahópurinn hætti við kaupin á síðustu stundu. Kornið sem fyllti mælinn voru himinháar skuldir fyrirtækisins sem voru vanáætlaðar á fyrri stigum samningaviðræðnanna.



Upphaflega var talið að skuldirnar næmu 225 milljónum dala, rúmlega 22 og hálfum miljarði króna, en þær reyndust í raun vera um 280 milljónir dala, þ.e. 28 milljarðar íslenskra króna.



Sjá einnig: Konur taka við völdum í fyrirtæki Weinstein

Fjárfestahópurinn sagðist reiðubúinn að greiða 500 milljónir dala, 50 milljarða króna, fyrir allt eignasafn fyrirtækisins. Þar á meðal er rétturinn að rúmlega 200 kvikmyndum sem fyrirtækið hefur framleitt í gegnum árin. Þá átti hluti kaupverðsins að renna í styrktarsjóð fyrir þolendur Weinstein.



Í yfirlýsingu frá Contreras-Sweet segir að fjárfestahópurinn hafi neyðst til að hætta samningaviðræðunum á lokametrunum vegna upplýsinga sem ollu hópnum „vonbrigðum.“



Ef af kaupunum hefði orðið sagði Contreras-Sweet að konur myndu fara með tögl og hagldir í fyrirtækinu og að bjarga mætti um 150 störfum. Nú virðist hins vegar allt stefna, aftur, í gjaldþrot framleiðslufyrirtækisins.


Tengdar fréttir

Fyrirtæki Weinstein gjaldþrota

Framleiðslufyrirtækið The Weinstein Company sem stofnað var af Harvey Weinstein, stefnir í gjaldþrot.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×