Körfubolti

Love fékk kvíðakast í miðjum leik: „Eins og heilinn væri að reyna að skríða út úr höfðinu“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kevin Love hugsar nú betur um andlega heilsu sína.
Kevin Love hugsar nú betur um andlega heilsu sína. vísir/getty

Kevin Love, leikmaður Cleveland Cavaliers, opnar sig í pistli sem hann skrifar á vefsíðuna The Players Tribune um ástæðu þess að hann þurfti að yfirgefa tvo leiki á tímabilinu þegar að þeir voru enn í fullum gangi.

Ástæðan er sú að Love fékk kvíðakast í miðjum leik, en vegna þess lítur hann nú allt öðrum augum á andleg veikindi íþróttamanna sem urðu kveikjan að skrifum hans.

Love var færður á sjúkrahús 5. nóvember þegar að Cleveland tapaði fyrir Atlanta Hawks en hann kvartaði þá yfir magaverk og erfiðleika með andardrátt. Hann segir í pistli sínum að einkennin hafi komið til vegna kvíðakastsins.

„Þetta kom upp úr engu. Ég hafði aldrei fengið kvíðakast áður. Ég vissi ekki einu sinni að þau væru til. En þau eru til. Þau eru eins raunveruleg og handarbrot eða tognaður ökkli. Frá þessum degi hef ég breytt því hvernig ég hugsa um andleg veikindi,“ skrifar Love.

Kevin Love á fullu í leik með Cleveland. vísir/getty

Love þurfti einnig að yfirgefa leik á móti Oklahoma City í janúar sem tapaðist en þá varð allt vitlaust innan liðsins. Haldinn var neyðarfundur þar sem sumir liðsfélagar Loves efuðust um að nokkuð væri að honum. Þeir vildu meina að hann væri bara auli sem gæfist upp þegar að vindar blésu á móti.

Þrátt fyrir að skrifa ekkert um þann fund í pistli sínum herma heimildir ESPN að Love sagði liðsfélögum sínum frá kvíðakastinu í þeim leik á umræddum fundi.

Leikmaðurinn skrifar um það í pistli sínum að hann hefur verið undir álagi heima fyrir og ekki að sofa vel. Hann vissi að eitthvað var að áður en leikurinn á móti Atlanta hófst.

„Það er erfitt að lýsa þessu. Það var eins og heimurinn snérist og eins og heilinn á mér væri að reyna að skríða út úr höfðinu. Loftið var þykkt og þungt. Munurinn var skraufþurr. Ég man að einn aðstoðarþjálfarinn öskraði eitthvað um varnarleik og ég kinkaði kolli án þess að heyra hvað hann var að segja. Ég var að fríka út,“ segir Kevin Love.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.