Fótbolti

Ensku stelpurnar fagna með Andrési Önd og Mikka Mús ef þær vinna í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andrés og Mikki bíða spenntir eftir stelpunum.
Andrés og Mikki bíða spenntir eftir stelpunum. vísir/getty
Enska kvennalandsliðið í fótbolta fær heldur betur góðan glaðning takist því að vinna SheBelives-bikarinn í kvöld en það mætir Bandaríkjunum í hreinum úrslitaleik í Orlando í Flórída.

Stelpurnar hans Phil Neville verða nefnilega sendar í Disney Land í fyrramálið þar sem þær geta vonandi fagna sigri á þessu stærsta og einu allra sterkasta æfingamóti hvers árs.

Liðin fjögur sem taka þátt (Bandaríkin, Þýskaland, England og Frakkland) raða sér í þrjú af efstu sex sætum heimslistans en Bandaríkin, Þýskaland og England eru í þremur efstu sætunum.

„Við sendum stelpurnar í Disney Land á fimmtudagsmorguninn. Þær leggja af stað fyrir átta um morguninn og fá nokkra tíma til að njóta sín þar,“ segir Phil Neville í viðtali við BBC en hann fer vel af stað með enska liðið.

Ljónynjurnar ensku byrjuðu mótið á því að rústa Frakklandi, 4-1, og gerðu svo 2-2 jafntefli við stórlið Þýskalands í annarri umferð. England og Bandaríkin eru bæði með fjögur stig og verður sigurvegari kvöldsins SheBelives-meistarinn 2018.

„Þetta er einstakt tækifæri fyrir leikmennina. Það er mikið að gera hjá þeim þannig það er ekki alltaf sem stelpurnar fá svona langan frítíma,“ segir Neville.

„Á meðan stelpurnar verða með Andrési Önd og Mikka Mús verðum við starfsliðið hér á sundlaugabakkanum að slaka á og vonandi að fagna sigri og frábærri byrjun á þessu ferðalagi okkar,“ segir Phil Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×