Innlent

Reyna að afla upplýsinga um Hauk

Birgir Olgeirsson skrifar
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir embættið reyna að afla upplýsinga um afdrif Hauks Hilmarssonar.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir embættið reyna að afla upplýsinga um afdrif Hauks Hilmarssonar. Vísir
Embætti ríkislögreglustjóra reynir að afla upplýsinga um afdrif Hauks Hilmarssonar, sem sagður er hafa fallið í stríðsátökum í Sýrlandi. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir í svari við fyrirspurn Vísis að embættið sé með mál Hauks á sínu borði. Unnið sé að því afla upplýsinga en ekki liggi fyrir á þessari stundu hvort og/eða hvenær upplýsingar fáist.

ANF fréttastofan hefur greint frá því að Haukur hafi fallið í átökum í Afrinhéraði í Sýrlandi í febrúar síðastliðnum. Vísaði fréttastofan í yfirlýsingu frá YPG, her sýrlenskra Kúrda, sem Haukur barðist með.

Haukur er sagður hafa látist í loftárás tyrkneska hersins þann 24. febrúar síðastliðinn ásamt tveimur arabískum liðsfélögum.

Utanríkisráðuneytið er sagt með alla anga úti við að afla upplýsinga um Hauk.Vísir/E.Ól
Var það hluti af áhlaupi tyrkneska hersins og uppreisnarmanna sem studdir eru af Tyrkjum á Afrinhérað sem hefur verið nefnt „Operation Olive Branch“. YPG-liðar hafa barist gegn Tyrkjum í héraðinu ásamt sveitum sem studdar eru af yfirvöldum í Íran.

Utanríkisráðuneytið sagðist í gær vera að kanna orðróm þess efnis að Haukur hefði fallið í stríðsátökum í Sýrlandi. Var reynt að afla staðfestingar í gegnum ræðismenn Íslands í Tyrklandi og alþjóðdeild embættis ríkislögreglustjóra.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Vísi í dag að utanríkisráðuneytið hefði engar staðfestingar fengið á fregnum sem hafa borist af Hauki ytra. Sagði Sveinn ráðuneytið vera með alla anga úti við að afla upplýsinga um mál Hauks.

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, ritaði stutta grein á bloggsíðu sína fyrr í dag þar sem hún óskaði eftir upplýsingar um Hauk sem mögulega gætu varpað ljósi á mál sonar hennar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×