Innlent

Bilun í netkerfi veldur röskun hjá Arion banka

Kjartan Kjartansson skrifar
Vandamál hafa komið upp með netbanka og snjallforrit Arion banka í dag. Eins hefur það áhrif á þjónustu í þjónustuveri og útibúum.
Vandamál hafa komið upp með netbanka og snjallforrit Arion banka í dag. Eins hefur það áhrif á þjónustu í þjónustuveri og útibúum. Vísir/Stefán
Viðskiptavinir Arion banka hafa ekki getað skráð sig inn í netbanka og upplýsingar í snjallforriti bankans hafa ekki uppfærst eðlilega vegna þess sem bankinn kallar „þjónusturof“. Í frétt á vefsíðu Arion kemur fram að rofið hafi einnig áhrif á þjónustu í útibúum og þjónustuveri.

Unnið er að greiningu og lagfæringu á kerfum bankans, að því er segir á vefsíðu bankans.

Haraldur Guðni Einarsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir við Vísi að bilun í netkerfi sé orsök þjónusturofsins. Hún hefur leitt til verulegrar röskunar á þjónustu í útibúum og þjónustuveri auk netbankans og snjallforrits bankans. Posar og greiðslukort frá bankanum virki hins vegar sem skyldi.

Álag á kerfinu olli töfum í netbanka Arion 1. desember. Í frétt Vísis kom fram að tafir hefðu fyrst og fremst orðið á bunkagreiðslum fyrirtækja, þar á meðal launagreiðslur.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×