Fótbolti

Ísland vann Dani í vítaspyrnukeppni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í baráttunni við Pernille Harder í fyrri leiknum við Dani
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í baráttunni við Pernille Harder í fyrri leiknum við Dani Vísir/EPA
Hlín Eiríksdóttir gerði sitt fyrsta mark fyrir A-landslið Íslands þegar hún jafnaði leik Íslands og Danmerkur á Algarve mótinu í fótbolta sem fram fer í Portúgal. Ísland hafði betur eftir vítaspyrnukeppni og endaði því í níunda sæti mótsins. 

Íslensku stelpurnar áttu hættulegri færi í fyrri hálfleik þar sem fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir skallaði í stöngina og Katrín Ásbjörnsdóttir átti skot sem Stina Lykke Petersen þurfti að hafa sig alla við að verja, en liðin gengu markalaus til búningsherbergja.

Hallbera Guðný Gísladóttir átti skot í þrverslánna beint úr hornspyrnu eftir um klukkutíma leik en aðeins þremur mínútum seinna kom Sanne Troelsgaard boltanum framhjá Sonný Láru Þráinsdóttur í íslenska markinu, gegn gangi leiksins.

Það tók Hlín þó aðeins átta mínútur að jafna leikinn. Enn ein stórhættulega hornspyrnan frá Hallberu rataði á kollinn á Hlín á fjærstönginni sem skilaði boltanum í netið.

Fleiri urðu mörkin ekki og Íslendingar gera annað jafntefli sitt við silfurliðið frá EM 2017 á nokkrum dögum í venjulegum leiktíma. Knýja þurfti fram úrslit í leiknum með vítaspyrnukeppni sem Ísland vann. Ingibjörg Sigurðardóttir, Rakel Hönnudóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Agla María Albertsdóttir og Andrea Rán Hauksdóttir skoruðu úr spyrnunum fyrir Ísland. Sonný Lára Þráinsdóttir varði þriðju spyrnu Dana, slaka spyrnu Sofie Junge Pedersen, og tryggði Íslandi 5-6 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×