Bílar

Lexus UX prýddi pallana í Genf

Finnur Thorlacius skrifar
Lexus kynnti glænýjan smáan UX borgarjeppling sem ekki verður löng bið eftir.
Lexus kynnti glænýjan smáan UX borgarjeppling sem ekki verður löng bið eftir.
Fréttablaðið brá sér á bílasýninguna sem nú stendur yfir í Genf og á fyrsta degi hennar á þriðjudaginn var mikið um dýrðir og kynningar á glænýjum bílum. Ein fyrsta kynningin var snemma dags þar sem Lexus kynnti nýjan og snaggaralegan jeppling í Compact Crossover flokki og mun hann bera nafnið Lexus UX. Vakti bíllinn eðlilega mikla athygli og dró að sér mikinn fjölda sýningargesta. Þarna fer minnsti bíllinn í jeppa/jepplingaflokki Lexus en fyrir eru bílarnir RX og NX og nafnið UX því í rökréttu framhaldi en U í UX stendur fyrir Urban því hér fer sannkallaður borgarjepplingur sem er af smærri gerðinni. Hann er meira að segja 13 cm styttri en Toyota Corolla, eða 4,5 metrar og því ætti að vera auðvelt að finna honum stæði í þröngri borgar­umferð.

Mun öflugri en Toyota CH-R

Bíllinn er, eins og eðlilegt má teljast með Lexus bíla, stórglæsilegur að innan og hinn vandaðasti í alla staði. Hann mun bjóðast bæði sem Hybrid-bíll og án Hybrid-aðstoðar og báðar gerðir verða með nýrri 2,0 lítra bensínvél og heita þessar gerðir UX 250h og UX 200. Þessi 2,0 lítra vél er 168 hestöfl og því 24 hestöflum öflugri en vélin í Toyota CH-R sem er ámóta stór borgarjepplingur úr smiðju systurmerkisins. Með Hybrid-kerfinu er bíllinn 176 hestöfl og þar sem rafmótorinn er að aftan er bíllinn fyrir vikið fjórhjóladrifinn þegar nægt afl er á rafhlöðunum. Lexus UX er með lægsta þyngdarpunktinn í sínum flokki bíla í heiminum og mikla stífni í undirvagni og yfirbyggingu. Hann á að vera með aksturseiginleika á við fólksbíl. Lexus UX á að koma á markað í haust í Bandaríkjunum og vonandi einnig hér á landi.



Ógnarfallegur LF-1 Limitless Concept tilraunabíll

Lexus kynnti ekki bara nýjan UX heldur hrikalega fallegan tilraunabíl, LF-1 Limitless Concept, á pöllunum í Genf. Þarna er kominn háfættur og stór, en umfram allt áberandi fallegur bíll sem ætti ekki að hræðast torfærurnar. Þessi bíll fer vonandi í framleiðslu hjá Lexus sem fyrst, þótt ekki sé hægt að slá því föstu. Hann yrði þá fjórði bíllinn í framleiðslulínu Lexus sem ekki telst fólksbíll og líklegast sá allra glæsilegasti. Þessi þróun kæmi ekki mikið á óvart í ljósi þess að flestir bílaframleiðendur eru að fjölga mjög í jeppa/jepplingaflokki á kostnað fólksbíla, enda eftirspurnin mest þar. Lexus kynnti einnig lengri gerð RX jeppans sem fær stafinn L í endann, enda bíllinn 11 cm lengri og með þrjár sætaraðir. RX 450hL verður enginn letingi með sína 313 hestafla drifrás, en þessi bíll verður bæði markaðssettur í Bandaríkjunum og Evrópu á næstunni.






×