Skoðun

Sektarákvæði jafnréttislaga hefur aldrei verið nýtt

Erna Guðmundsdóttir skrifar
Jafnréttislög hafa verið í gildi hér á landi í rúm 40 ár og tekið nokkrum breytingum á þeim tíma. Ljóst er að frá setningu laganna hefur staða jafnréttismála breyst verulega til batnaðar. Engu að síður er kynbundinn launamunur viðvarandi vandamál og konur eru í minnihluta í öllum áhrifastöðum hvert sem litið er. Þá er kynferðisleg og kynbundin áreitni á vinnustöðum stórkostlega alvarlegt mál eins og nýlegar frásagnir kvenna hafa leitt í ljós.

Árið 2008 fór fram heildarendurskoðun á jafnréttislögum. Þá voru tekin tvö skref sem áttu að stuðla að því að markmiði laganna um jafnrétti kynjanna yrði náð. Í fyrsta lagi voru úrskurðir kærunefndar jafnréttismála gerðir bindandi og í öðru lagi var kveðið á um sektarheimildir Jafnréttisstofu. Sektirnar geta numið allt að 50.000 kr. á dag þar til viðunandi úrbætur hafa verið gerðar. Slíkum dagsektum hefur hins vegar aldrei verið beitt.

Háar sektir við brotum á nýrri persónuverndarlöggjöf

Á þessu ári mun ný persónuverndarlöggjöf taka gildi hérlendis þegar ný reglugerð Evrópusambandsins (ESB) um persónuvernd leysir af hólmi núgildandi Evrópulöggjöf. Lögunum er m.a. ætlað að vernda rétt einstaklinga til að stjórna eigin persónuupplýsingum. Brot á persónuverndarlöggjöfinni munu geta haft miklar efnahagslegar afleiðingar í för með sér fyrir fyrirtæki, stofnanir og aðra sem vinna með persónuupplýsingar. Eftirlitsstofnanir munu geta sektað fyrirtæki um allt að 4% af árlegri heildarveltu á heimsmarkaði fyrir brot á lögunum eða sem nemur allt að 20 milljónum evra. Slíka sekt verður t.d. hægt að leggja á hafi fyrirtæki farið gegn markmiðum laganna eða ef ekki liggur fyrir fullnægjandi samþykki frá einstaklingi fyrir því að unnið sé úr persónugreinanlegum gögnum um hann. Í marga mánuði hafa fyrirtæki og stofnanir unnið hörðum höndum að því að undirbúa innleiðingu persónuverndarlaganna, m.a. til þess að forðast sektir.



Brot á jafnréttislögum hafi efnahagslegar afleiðingar

Eins og staðan er nú hefur það engar efnahagslegar afleiðingar fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga að brjóta jafnréttislögin. Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur skipað starfshóp sérfræðinga til að hefja undirbúning að heildarendurskoðun laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Starfshópnum er ætlað vinna úttekt á þróun, framkvæmd og eftirfylgni íslenskrar jafnréttislöggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála og á að skila af sér haustið 2018. Í framhaldinu mun þverpóli­tísk nefnd taka við og skila ráðherra drögum að lagafrumvarpi sem ætlað er að auka skilvirkni og stuðla enn frekar að jafnrétti kynjanna og eflingu úrræða, auk tillagna að framtíðarskipan stjórnsýslu jafnréttismála.



Þetta eru góð og gild markmið en það er mat mitt að því miður sé eina ráðið að fara að fordæmi nýrra persónuverndarlaga og fylgja brotum á jafnréttislögum kröftuglega eftir með háum sektum. Það er það eina sem virkar þangað til raunverulegt jafnrétti er komið á hér á landi.

Höfundur er framkvæmdastjóri BHM




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×