Fótbolti

Chiellini barðist við tárin spurður um Astori eftir leik: „Hann lifir áfram í hjörtum okkar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Georgio Chiellini í viðtalinu.
Georgio Chiellini í viðtalinu. skjáskot
Georgio Chiellini, miðvörður Juventus og ítalska landsliðsins, barðist við tárin þegar að hann var spurður út í Davide Astori eftir frækinn sigur Ítalíumeistaranna á Wembley í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Landsliðsmaðurinn Astori lést langt fyrir aldur fram á dögunum og hefur ítalskur fótbolti verið í lamasessi vegna fráfalls hans. Útför Astori fer fram á morgun.

„Við tileinkum ekki bara honum sigurinn heldur hugsum við um hann alla daga. Ég hef grátið margsinnis út af þessu,“ sagði Chiellini.

„Hann var frábær leikmaður og þetta er búinn að vera erfiður dagur því við þurftum að hugsa um þennan leik og mótherja kvöldsins. Astori er alltaf í hjarta okkar.“

„Á morgun kveðjum við hann liðsfélagarnir. Þetta er erfitt en við verðum að halda áfram að lifa. Astori lifir áfram í hjörtum okkar í landsliðinu því hann var alltaf glaður og alltaf brosandi,“ sagði Georgio Chiellini.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×