Fótbolti

Segja strákana okkar 19. besta liðið á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir okkar eru sagðir reyna að fá stig í öllum leikjum á HM.
Strákarnir okkar eru sagðir reyna að fá stig í öllum leikjum á HM. Vísir/Anton
Frétta- og fótboltavefir út um allan heim keppast nú um að gefa út styrkleikaröðun (e. Power Rankings) fyrir HM 2018 sem hefst í Rússlandi um miðjan júní.

Einn þeirra er ástralski fréttavefurinn ABC í ástralíu, en samkvæmt honum er íslenska landsliðið það nítjánda besta á HM þar sem strákarnir okkar verða í fyrsta sinn í sögunni.

Þrjátíu og tvö lið taka þátt í HM og eru strákarnir okkar því aðeins fyrir neðan miðju en í sætinu á undan eru frændur vorir Danir og í sætinu á eftir eru Senegalar.

Öll liðin sem eru með Íslandi í riðli eru sett fyrir ofan í styrkleikaröðun Ástralanna sem setja sitt eigið lið í 28. sæti af þjóðunum 32 sem hefja leik í Rússlandi.

Argentína er í sjötta sæti, Króatía í sjöunda sæti og Nígería í 17. sæti þessari styrkleikaröðun en efstir eru Brassar og Þjóðverjar koma svo í öðru sætinu.

Næstu tveir leikir íslenska liðsins eru vináttuleikir á móti Perú og Mexíkó í Bandaríkjunum en Perúmenn eru í 21. sæti þessa lista og Mexíkóar í 13. sæti.

„Þrátt fyrir að vera lítil þjóð mun íslenska liðið reyna að fá stig í öllum þremur leikjunum með því að spila sterkan varnarleik og sækja hratt,“ segir í umsögn um strákana okkar.

„Krúnudjásnið í liðinu er miðjumaðurinn Gylfi Sigurðsson sem spilar með Everton í ensku úrvalsdeildinni. Hann var lykilmaðurinn í frábærri undankeppni Íslands,“ segir um Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×