Innlent

Fjórir í haldi eftir aðgerð sérsveitar í Bríetartúni

Birgir Olgeirsson skrifar
Tveir menn eru í haldi vegna málsins.
Tveir menn eru í haldi vegna málsins. vísir/eyþór

Þrír karlmenn og ein kona voru færð á lögreglustöð eftir aðgerðir sérsveitar ríkislögreglustjóra í Bríetartúni á tíunda tímanum í morgun. 

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi fyrr í morgun að sérsveitin hefði farið inn í íbúð við Bríetartún og tveir menn verið færðir niður á lögreglustöð.

Í framhaldinu barst tilkynning frá lögreglu þar sem kom fram að fjórir væru í haldi vegna málsins.

Lögreglan sagði í tilkynningu að hún hefði handtekið þrjá karla og eina konu sem grunuð eru um líkamsárás gegn annarri konu. Er grunur um að barefli hafi verið beitt í árásinni auk þess sem brotaþola hafi verið ógnað með hníf. Konan var flutt á slysadeild til aðhlynningar en áverkar hennar eru ekki sagðir alvarlegir. 

Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að mennirnir yrðu yfirheyrðir síðar í dag. Þeir voru í annarlegu ástandi þegar þeir voru handteknir. 

Jóhann Karl sagði að grunur hefði verið um að einhver væri með hníf á sér í íbúðinni og þess vegna hefði verið óskað eftir aðstoð sérsveitar. 

Jóhann Karl sagði málið ótengt rassíu lögreglu í gær þar sem alls sjö menn voru handteknir á Ægisíðu og Grettisgötu.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:54.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.