Viðskipti innlent

Útibúum Arion banka í Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ lokað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Útibúi Arion banka í Hafnarfirði (sjá mynd) og Garðabæ verður lokað en annað opnað á ótilgreindum stað í alfaraleið fyrir íbúa í sveitarfélögunum tveimur.
Útibúi Arion banka í Hafnarfirði (sjá mynd) og Garðabæ verður lokað en annað opnað á ótilgreindum stað í alfaraleið fyrir íbúa í sveitarfélögunum tveimur. Já.is
Miklar breytingar eru framundan er snerta útibú Arion banka víðs vegar um landið. Til stendur að loka útibúum á nokkrum stöðum og sameina öðrum. Breytingarnar snerta tugi starfsmanna sem verður boðið að flytja sig til innan bankans að sögn Haraldar Guðna Einarssonar, upplýsingafulltrúa bankans.

Arion banki sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem greint var frá tíðindunum á þeim forsendum að um þægilegri og aðgengilegri bankaþjónustu yrði að ræða fyrir viðskiptavini.

Útibúi Arion banka í Mosfellsbæ verður lokað og það sameinað útibúinu á Bíldshöfða.Já.is
Starfsemi útibúa í Garðabæ og Hafnarfirði verður lokað og að hluta til sameinuð útibúi bankans á Smáratorgi sem á að efla.

„Á sama tíma mun bankinn opna nýtt útibú í alfaraleið með það að markmiði að veita íbúum og viðskiptavinum sem eiga leið um Garðabæ og Hafnarfjörð þægilegri bankaþjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Þá verður útibúi Arion banka í Mosfellsbæ lokað í maí og það sameinað útibúi bankans á Bíldshöfða í Reykjavík. Jafnframt verður útibúi bankans á Ólafsfirði lokað og það sameinað útibúinu á Siglufirði.

Útibúi bankans á Ólafsfirði verður lokað.Já.is
„Áfram verða alhliða hraðþjónustubankar í Mosfellsbæ, Firði í Hafnarfirði og á Ólafsfirði þar sem m.a. er hægt að taka út og leggja inn seðla, greiða reikninga og millifæra.“

Útibú Arion banka á Akureyri, Blönduósi, Hellu og í Vík í Mýrdal munu öll flytja í nýtt húsnæði.

„Unnið er að því að velja nýtt húsnæði en við val á nýjum staðsetningum verður einkum horft til góðs aðgengis, möguleika á sveigjanlegri afgreiðslutíma og sólarhringsaðgengi að sjálfsafgreiðslulausnum,“ segir í tilkynningunni.

Þá verður útibúi Arion banka við Hagatorg lokað um tíma þar sem ráðast á í miklar breytingar á útibúinu.

Í tilkynningu bankans, sem lesa má í heild að neðan, segir að ekki verði komist hjá því að breytingunum fylgi ákveðið rask fyrir viðskiptavini. 

Tilkynningu bankans má lesa í heild hér að neðan.

Breytingar á útibúaneti – þægilegri og aðgengilegri bankaþjónusta

Með tilkomu nýrra stafrænna þjónustuleiða eru að verða miklar breytingar á því hvar, hvenær og hvernig viðskiptavinir kjósa að sinna sínum fjármálum. Á næstu vikum og mánuðum mun Arion banki ráðast í breytingar á útibúaneti bankans til að aðlaga það að þessum nýju þjónustuleiðum sem allar miða að því að gera þjónustu bankans aðgengilegri og þægilegri fyrir viðskiptavini.

Lögð verður áhersla á sveigjanlegri þjónustutíma, betra aðgengi að hraðbönkum og öðrum sjálfsafgreiðslutækjum, aukinn stuðning við stafrænar þjónustuleiðir og gott aðgengi að fjármálaráðgjöf. Þá er einnig stefnt að því að nýta betur húsnæði bankans, fækka fermetrum og auka hagkvæmni í rekstri.

Sterkari þjónustukjarnar

Annars vegar verða útibú bankans í Borgartúni og á Bíldshöfða í Reykjavík og á Smáratorgi í Kópavogi efld. Öll veita þau víðtæka þjónustu, en útibúin eru svokallaðir þjónustukjarnar, líkt og útibúin í Borgarnesi, á Selfossi og á Akureyri. Í þjónustukjörnum er lögð áhersla á almenna fjármálaþjónustu og ráðgjöf sérfræðinga á öllum helstu sviðum fjármála einstaklinga og fyrirtækja.

Jafnframt verður þjónusta í þjónustuveri efld. Bankinn mun áfram horfa til sveigjanlegri afgreiðslutíma og fjölbreyttra samskiptaleiða í takt við þarfir viðskiptavina en í dag er m.a. veitt þjónusta og ráðgjöf í gegnum síma, samfélagsmiðla, netspjall og tölvupóst.

Aðgengilegri þjónusta

Hins vegar miða breytingarnar að því að einfalda mörg af smærri útibúum bankans og gera þau aðgengilegri með m.a. nýjum staðsetningum og sveigjanlegri afgreiðslutíma. Áhersla verður á almenna bankaþjónustu og stuðning við stafrænar þjónustuleiðir auk þess sem boðið verður upp á ráðgjöf hjá sérfræðingum bankans í gegnum fjarfundarbúnað. Byggt verður á góðri reynslu af nýju og endurbættu útibúi Arion banka í Kringlunni en viðskiptavinir bankans hafa tekið hinu nýja Kringluútibúi vel. Innlitum í útibúið hefur fjölgað og ánægja verið með þær nýjungar sem þar hafa verið kynntar, m.a. fjarfundi með ráðgjöfum bankans.

Helstu breytingar á útibúaneti Arion banka:

Sameiningar útibúa 

Starfsemi útibúa Arion banka í Garðabæ og Hafnarfirði verður í sumar að hluta til sameinuð þjónustukjarna    bankans á Smáratorgi í Kópavogi. Á sama tíma mun bankinn opna nýtt útibú í alfaraleið með það að markmiði að veita íbúum og viðskiptavinum sem eiga leið um Garðabæ og Hafnarfjörð þægilegri bankaþjónustu. Við hönnun nýja útibúsins er horft til útibús Arion banka í Kringlunni en þar er áhersla lögð á sveigjanleika í afgreiðslutíma og gott aðgengi að stafrænum lausnum auk þess sem sérfræðingar bankans veita ráðgjöf í gegnum fjarfundarbúnað.

Í maí mun útibú Arion banka í Mosfellsbæ sameinast þjónustukjarna bankans við Bíldshöfða í Reykjavík. Jafnframt mun útibú bankans á Ólafsfirði sameinast útibúinu á Siglufirði.

Áfram verða alhliða hraðþjónustubankar í Mosfellsbæ, Firði í Hafnarfirði og á Ólafsfirði þar sem m.a. er hægt að taka út og leggja inn seðla, greiða reikninga og millifæra.

Rótgróin útibú fá ný heimili 

Útibú Arion banka á Akureyri, Blönduósi, Hellu og í Vík í Mýrdal munu öll flytja í nýtt húsnæði. Unnið er að því að velja nýtt húsnæði en við val á nýjum staðsetningum verður einkum horft til góðs aðgengis, möguleika á sveigjanlegri afgreiðslutíma og sólarhringsaðgengi að sjálfsafgreiðslulausnum.

Endurbætur á Vesturbæjarútibúi

Útibú Arion banka við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavíkur mun taka gagngerum breytingum. Loka verður útibúinu tímabundið vegna framkvæmdanna en á þeim tíma verða hraðbankar að sjálfsögðu aðgengilegir.

Ekki verður hjá því komið að þessum breytingunum fylgi ákveðið rask fyrir viðskiptavini en bankinn mun kappkosta að lágmarka það eins og frekast er unnt.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×