Lífið

Sálin þrjátíu ára og stóru egóin rífast annan hvern dag

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sálin var stofnuð þann 10.mars árið 1988.
Sálin var stofnuð þann 10.mars árið 1988.
Sálin hans Jóns míns var stofnuð þann 10. mars 1988 og fagnar því um helgina 30 ára afmæli. Ísland í dag settist niður með Stefáni Hilmarssyni og Guðmundi Jónssyni og voru bestu augnablikin rifjuð upp.

Guðmundur segir að Rafn Jónsson og Jón Ólafsson hafi upphaflega átt hugmyndina af stofnun bandsins.

„Það var einhver stund milli stríða, menn blankir og það þurfti að stofna hljómsveit,“ segir Guðmundur. Upphaflega átti sveitin að spila soul músík og átti Sálin upphaflega að vera þriggja mánaða verkefni. Árið 1988 var stórt ár hjá Stefáni Hilmarssyni en nokkrum vikum eftir að sveitin var stofnuð tók hann þátt í Eurovision með Sverri Stormsker þar sem þeir fluttu lagið fræga Sókrates.

„Fyrsta giggið hjá okkur var bara strax á eftir undankeppninni í Eurovision. Það var mikið að gerast hjá mér á þessum tíma.“

Guðmundur segir að rauði þráðurinn í sveitinni hafi verið skemmtunin að koma fram á böllum.

„Við höfum verið það heppnir að eiga mjög dyggan hóp aðdáenda sem mæta vel á tónleika,“ segir Stefán. Sálin heldur stórtónleika í Valsheimilinu á laugardagskvöldið og fagnar bandið afmælinu með pompi og prakt.

En fá þeir aldrei leið á hvor öðrum?

„Jú jú, svona annan hvern dag. Það eru stór egó innan hljómsveitarinnar og það eru alltaf núningar. Oftar en ekki þarf svona núningar til að halda hlutunum gangandi.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við þá drengi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×