Innlent

Fjármálaráðherra með frumvarp um laun kjörinna fulltrúa í smíðum

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, boðar frumvarp um laun kjörinna fulltrúa í samræmi við nýlegar tillögur nefndar.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, boðar frumvarp um laun kjörinna fulltrúa í samræmi við nýlegar tillögur nefndar. Vísir/Hanna
Þingmaður Pírata gagnrýnir að laun þeirra sem sitja í kjararáði hafi verið hækkuð um áramótin samkvæmt launavísitölu og spyr hvort ekki væri þá eðlilegt að miða kjör almennings og kjörinna fulltrúa við vísitöluna. Fjármálaráðherra boðar frumvarp um laun kjörinna fulltrúa í samræmi við nýlegar tillögur nefndar.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata gagnrýndi í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun að laun þeirra sem sitja í kjararáði hefðu verið hækkuð í desember að tillögu ráðsins sjálfs um 7,3 prósent. Sú hækkun hafi miðast við hækkun launavísitölu frá árinu 2016 til 2017.

„Launavísitala er mjög spes (sérstakt) mælitæki. Hækkun miðað við launavísitölu er hækkun umfram aðra,“ sagði Björn Leví. Hann spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, sem féllst á ósk kjararáðs í byrjun desember, hvort ekki væri eðlilegt að laun fólks á vinnumarkaði hækkaði einnig um 7,3 prósent og að laun þingmanna og ráðherra tækju einnig mið af launavísitölu.

„Ég held að ef væri gáð kæmi í ljós að tímagjald sem ríkið er almennt að greiða fyrir sérfræðiþjónustu liggi einhvers staðar á þessu bili sem kjararáðs meðlimir hafa haft í tímagjald í verktöku,“ sagði Bjarni.

Fjármálaráðherra sagði sjálfsagt að ræða við þingið um taxta fjármálaráðuneytinsins  fyrir veitta sérfræðiþjónustu. Hvað varðaði breytingar á launum þingmanna og ráðherra litist honum hins vegar betur á tillögur nefndar um breytingar á þeim málum en að miðað yrði við launavísitölu.

„Háttvirtur þingmaður fær mig ekki til að koma með nýjar útfærslur á því með hvaða hætti eigi að taka ákvarðanir um þessi efni fyrir þingmenn eða ráðherra. Við höfum gert grein fyrir því að við hyggjumst fylgja eftir þeirri niðurstöðu sem birtist í nýrri skýrslu um þessi efni. Ég vinn að frumvarpi til breytinga á lögum í samræmi við þá niðurstöðu,“ sagði Bjarni Benediktsson.


Tengdar fréttir

Fá sextán þúsund á tímann í kjararáði

Þóknun til þeirra sem sitja í kjararáði er nú 16.290 krónur á tímann og hafa launin hækkað um 62,9 prósent á tíu árum. Allar þrjár óskir formanns kjararáðs um launahækkun til ráðsmanna á undanförnum sex árum hafa verið samþykktar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×