Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll-Stjarnan 87-67 | Stólarnir með öruggan sigur í Síkinu

Hákon Ingi Rafnsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson.
Pétur Rúnar Birgisson. Vísir/Eyþór

Tindastóll og Stjarnan mættust í kvöld í 22. umferð Domino´s deildarinnar í Síkinu. Þetta var seinasta umferðin í deildinni fyrir úrslitakeppnina.

Bæði lið byrjuðu leikinn frábærlega og voru hnífjöfn út fyrri hálfleik. Heimamenn duttu í gírinn snemma í öðrum leikhluta og voru komnir 10 stigum yfir þegar Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé en aðeins 1 mínúta var liðin af 2 leikhluta. Stjörnumenn komu sér fljótt aftur inn í leikinn og héldu leiknum nokkuð jöfnum út leikhlutann. Hálfleikstölur voru 40-36.

Þriðji leikhlutinn byrjaði einnig gífurlega jafnt en þegar 6 mínútur voru liðnar af leikhlutanum datt Helgi Freyr Margeirsson í gang og kom heimamönnum í 10 stiga forystu. Heimamenn héldu þessari forystu í þriðja leikhlutanum. Staðan eftir leikhlutann var 63-52.

Tindastóll hélt áfram sinni frábæru vörn í 4. leikhluta en þeir komust í 20 stiga forystu um miðjan leikhlutann og skoruðu flest stigin sín eftir að stela bolta og spretta fram í hraðaupphlaup. Lokatölur voru 87-67.

Hvers vegna vann Tindastóll?
Tindastóll barðist út allan leikinn, hentu sér á alla lausa bolta og þessi barátta skilaði því að Tindastóll var með 17 fráköstum fleiri en Stjarnan.

Hverjir stóðu upp úr?
Hannes Már átti frábæran leik í kvöld en hann skilaði 13 stigum, 4 fráköstum og spilaði frábæra vörn allan leikinn.
Tómas Þórður var einnig flottur í kvöld með 22 stig og 8 fráköst.

Hvað gekk illa?
Stjörnumönnum gekk illa að stoppa hraðaupphlaup Stólanna og það vantaði mikið meiri baráttu frá þeim í fráköstin.

Hvað gerist næst?
Tindastóll mætir Grindavík í úrslitakeppninni og þar má búast við hörkuseríu.

Stjarnan mætir ÍR annað árið í röð og það verður spennandi að sjá hvort að ÍR svari fyrir sig eftir að Stjarnan hafi slegið þá út í fyrra.

Tindastóll-Stjarnan 87-67 (19-16, 21-20, 23-16, 24-15)

Tindastóll:
Pétur Rúnar Birgisson 13/7 fráköst/6 stoðsendingar, Hannes Ingi Másson 13/4 fráköst, Antonio Hester 12/11 fráköst, Viðar Ágústsson 11, Chris Davenport 8/8 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 8, Helgi Rafn Viggósson 8/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6/4 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 6, Axel Kárason 2.

Stjarnan: Tómas Þórður Hilmarsson 22/8 fráköst, Róbert Sigurðsson 16, Hlynur Elías Bæringsson 8/8 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 6, Arnþór Freyr Guðmundsson 6/4 fráköst, Darrell Devonte Combs 5, Dúi Þór Jónsson 2, Collin Anthony Pryor 2/6 fráköst.

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Bára

Hrafn: Við vorum ekki nógu andlega sterkir
Hrafn Kristjánsson, Þjálfari Stjörnunnar, sagði að sínir menn hefðu ekki verið nógu andlega sterkir til að klára þennan leik í kvöld þrátt fyrir góðann fyrri hálfleik.

„Við vorum bara ekki nógu andlega sterkir. Við vorum góðir í fyrri hálfleik en þegar þeir stigu í áttina að okkur í fyrri hálfleik þá bökkuðum við bara frá og vorum litlir í okkur.“

Það er ljóst að Stjarnan mætir ÍR í úrslitakeppninni og Hrafn var spurður hvernig honum leist á það.

„Úrslitakeppnin leggst alltaf vel í mann, ÍR-ingar hafa verið frábærir í vetur og það verður erfitt að mæta þeim. Það er pirrandi að taka einn frábæran leik og vera svo lélegir í þeim næsta í úrslitakeppninni svo að við þurfum að taka til í hausnum á okkur fyrir þetta.“

Hannes: Þægilegt að klára deildina sterkt
Hannes Ingi, leikmaður Tindastóls, var mjög ánægður eftir leikinn og sagði að það væri frábært að klára leik svona fyrir úrslitakeppnina.

„Það er mjög þægilegt að klára með sterkum 20 stiga sigri og fara tilbúnir í úrslitakeppnina.“

Viðar Ágústsson fékk olnboga í nefið á sér og Hannes var spurður hvort að hann vissi eitthvað um ástand hans.

„Hann finnur ekki fyrir þessu, bara smá blóðnasir en hann verður góður fyrir úrslitakeppnina.“

Tindastóll fær Grindavík í úrslitakeppninni og Hannes var mjög bjartsýnn á því að fá þá.

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Við höfum unnið þá tvisvar í deildinni svo að við eigum að geta unnið þá í seríu.“

Israel Martin, þjálfari Tindastóls. Vísir

Israe: Við bættum okkur með því að berjast
Israel Martin, þjálfari Tindastóls, var ánægður með liðið sitt eftir leikinn en hann sagði að þeir hefðu bætt sig mikið í seinni hálfleik.

„Í fyrri hálfleik spiluðum við allt í lagi, en í þeim seinni börðumst við um alla bolta og spiluðum loksins frábæra vörn.“

Martin var spurður um Viðar og hvort að hann vissi um ástandið á honum.

„Ég hef ekkert heyrt frá honum, veit bara að nefið á honum snýr til suður.“

Tindastóll fær Grindavík í úrslitakeppninni og Martin tjáði sig um það.

„Þetta er Grindavík svo að við verðum að berjast allan tímann. Ég vil bara fá allann hópinn minn að spila og þá er ég mjög glaður.“

Hlynur: Það var bara meiri barátta og stemning í þeim
Hlynur, leikmaður Stjörnunnar, sagði að Tindastóll hafi verið töluvert betri í leiknum vegna baráttu í vörn og í sókn.

„Varnarlega náðum við ekki að stoppa þá, hleyptum þeim allt of mikið inn að körfunni og þeir voru bara heilt yfir töluvert betri, með meiri baráttu og stemningu.

Stjarnan fær ÍR í úrslitakeppninni, Hlynur tjáði sig um það.

„Það er gaman að spila í Seljarskóla og það er langt síðan að ég hef farið inn í úrslitakeppni sem neðra liðið svo það verður gaman að sjá hvernig það fer. Við erum annars ekkert að fara að gefast upp í þessu og ég held að það verði veisla.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.