Umfjöllun og viðtöl: Keflavík-ÍR 67-74 | ÍR-ingar tryggðu sér annað sætið með sigri í Keflavík

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
Matthías Orri Sigurðarson og félagar í ÍR unnu sigur í Keflavík í kvöld.
Matthías Orri Sigurðarson og félagar í ÍR unnu sigur í Keflavík í kvöld. Vísir/Bára
ÍR vann Keflavík í kvöld á útivelli 69-74 í spennandi leik og tryggði sér um leið annað sætið í deildinni. Hvorugt liðið var að eiga sinn besta leik í kvöld þá sérstaklega sóknarlega en varnir liðina voru öflugar.

Leikurinn byrjaði rólega og voru bæði lið að þreifa fyrr sér. Þegar á leið fyrsta fjórðung fudu heimamenn taktinn, skorðuðu sjö stig í röð og náðu sjö stiga forskoti 22-15 þegar rúmlega mínúta var eftir af leikhlutanum. ÍR-ingar áttu seinasta orðið í leikhlutanum og staðan í lok hans 24-19.

Í öðrum leikhlutanum byrjuðu gestirnir af krafti og náðu að jafna leikinn strax í upphafi hans. Liðin skiptust á að leiða en er á leið náði Keflavík undir stjórn Harðar Axels Vilhjálmssonar aftur spretti og náðu sjö stiga forystu. Seinustu átta stig hálfleiksins voru ÍR-inga og leiddu þeir því er gengið var til klefa 40-41.

Í þriðja leikhluta virtust ÍR-ingar ætla að taka þennann leik yfir, Ryan Taylor var að reynast Keflvíkingum erfiður og sóknarleikur heimamanna ekki upp á marga fiska. ÍRingar leiddu því 53-61 fyrir seinasta leikhlutann. Í fjórða leikhluta settu Keflvíkingar í lás í vörninni og söxuðu jafnt og þétt niður forskot gestanna.

Þegar fimm mínútur lifðu leiks höfðu ÍR-ingar aðeins skorað tvö stig gegn 12 stigum heimamanna og staðan 65-63. Spennan var mikil það sem eftir lifði leiks. Hákon Örn Hjálmarsson kom gestunum tveimur stigum yfir þegar um tvær mínútur voru eftir. Næstu mínútu virtist vera lok á körfum beggja liða þangað til að Sæþór Elmar Kristjánsson náði mikilvægu sóknarfrákasti fyrir ÍR-inga og skoraði auðvelda körfu þegar 30 sekúndur voru eftir. Keflvíkingar fengu eitt tækifæri til að jafna leikinn en þriggja stiga skot Ágústar Orrasonar geigaði og sigurinn í höfn hjá ÍR-ingum.

Af hverju vann ÍR?

Leikurinn hafði meiri þýðingu fyrir ÍR en Keflavík og höfðu þeir í lokin meiri vilja til að klára þetta. Keflvíkingar náðu alls ekki að sýna sitt rétta andlit í kvöld, sérstaklega sóknarlega.

Hverjir stóðu upp úr? 

Fyrir heimamenn var Christian Dion Jones góðir en hann skoraði 20 stig og tók 9 fráköst. Hörður Axel átti einnig ágætis leik, sér í lagi í fyrri hálfleik en hann endaði leikinn með 16 stig.

Hjá gestunum var Ryan Taylor öflugur með 22 stig og 12 fráköst. Danero Thomas átti einnig góðan leik en hann skoraði 16 stig.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn var ekki góður í kvöld. Keflvíkingar geta ekki verið sáttir með að skora undir sjötíu stig á heimavelli. Sóknarleikur gestanna var heldur ekki góður en þegar á hólminn kom settu þeir stóru skotinn niður. Einnig verður að minnast á mætingu áhorfenda á þennann leik en hún var döpur. Ghetto Hoologans björguðu stemmningunni.

Tölfræði sem vekur athygli

Þegar rýnt er í tölfræðina er það helsta sem vekur athygli að ÍR-ingar taka fjögur fleiri sóknarfráköst en Keflavík, tvö þeirra komu undir lok leiks og tryggðu ÍRingum sigurinn. Einnig er athyglisvert að Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Keflavíkur spilaði ekki Degi Lár Jónssyni, Ragnari Bragasyni né Dominique Elliot í síðari hálfleik.

Hvað næst?

Keflavík fær deildarmeistara Hauka í fyrstu umferð úrslitakeppninnar meðan að ÍR-ingar etja kappi við Stjörnuna.

Keflavík-ÍR 69-74 (24-19, 16-22, 13-20, 16-13)

Keflavík:
Christian Dion Jones 20/9 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 16/6 stoðsendingar, Reggie Dupree 11, Dominique Elliott 8/7 fráköst, Guðmundur Jónsson 7/6 fráköst, Magnús Már Traustason 3/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 2, Daði Lár Jónsson 2.

ÍR: Ryan Taylor 22/12 fráköst, Danero Thomas 16/4 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 11/7 fráköst/6 stoðsendingar, Hákon Örn Hjálmarsson 9/7 fráköst, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 5, Trausti Eiríksson 5, Sæþór Elmar Kristjánsson 4, Sveinbjörn Claessen 2.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur.vísir/ernir
Friðrik Ingi: Ég var ánægður með hugarfarið

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Keflavíkur var ekkert allt of ósáttur með leik sinna manna í kvöld. Keflavík hafði ekki neinu að keppa en liðið sýndi baráttu sem vantaði í seinasta leik gegn Stjörnunni. 

„Þetta var nú barátta um stöðu fannst mér, sóknarleikur beggja liða ekki upp á marga fiska, varnirnar á köflum ágætar. Ég var ánægður með hugarfarið hjá okkur að mestu leyti.Mér fannst við koma betur stemmdir til leiks núna en síðast. Auðvitað höfðum við ekki neinu að keppa nema það að sýna kannski sjálfum okkur að við værum ekki dauðir úr öllum æðum og það væri kannski meira varið í okkur en við sýndum í síðasta leik sem var náttúrulega arfaslakt,“ sagði hann.

Friðrik Ingi sagði að liðið yrði að spila betur í úrslitakeppninni, hún væri nýtt mót og liðið þyrfti að stilla sig saman fyrir hana og ef menn berjist fyrir hvorn annann þá sé hægt að vinna hvaða lið sem er. 

„Ég veit að við getum spilað betur og nú bara tekur nýtt mót og eins og ég segi við erum með þannig lið ef við erum allir á sömu blaðsíðu og erum að berjast fyrir hvern annan þá getum við unnið hvern sem er, við höfum sýnt það í vetur, en við erum hins vegar ekki það góðir að við getum bara mætt hvernig sem er og ætlað að ýta á einhvern takka í miðjum leikjum hér og þar við erum bara ekki nógu góðir í það. Við þurfum bara að finna okkar sjálf einhvernveginn og hvenær við erum bestir en það er þegar við erum að berjast hver fyrir einn og það er eitthvað sem við þurfum að leggjast yfir núna og mér fannst við sýna það á köflum í þessum leik. En núna hefst bara nýtt mót og Haukar verða andstæðingar okkar í fyrstu umferð,” sagði hann.

Borce Ilievski, þjálfari ÍR.Vísir/Bára
Borche: Ánægður með sigurinn

Borche Ilievski þjálfari ÍR-inga var ánægður með sigurinn en honum fannst leikurinn ekki fallegur. Hann hrósaði Hákoni Erni Hjálmarsyni fyrir sitt framlag í lok leiksins en hann setti niður stórt skot sem reyndist ÍR-ingum ansi dýrmætt þegar upp var staðið.

„Ég er ánægður með sigurinn en leikurinn var eins og hann var, kannski út af mikilvægi hans var hann ekki sérlega fallegur. Í seinni hálfleik áttum við í vandræðum sóknarlega, sérstaklega með boltahreyfinguna. En þegar á leið reynum við að stjórna hraðanum, varnarlega vorum við að berjast og neyddum Keflvíkinga líka til að gera mistök í sókninni. Ég lét Hákon inn á undir lokin sem hjálpaði Mattíhasi í skipulaginu og þá urðum við hættulegri fyrir vörn Keflavíkur, Hákon setti niður stórt þriggja stiga skot en þetta var leikur sem ein stór karfa var að fara vinna leikinn og í kvöld var það Hákon sem setti það,”sagði hann.

Um úrslitakeppnina sagði hann að nú hæfist undirbúningur fyrir erfitt einvígi við Stjörnuna, en þessi lið mættust einnig í fyrra þar sem Stjörnumenn unnu einvígið 3-0. 

„Andstæðingur okkar í úrslitakeppninni er Stjarnan og við munum reyna að undirbúa okkur mjög vel fyrir það einvígi. Stjarnan er með mjög gott lið með frábæra leikmenn og þetta verður ekki auðvelt en við munum gera okkar besta í úrslitakeppninni,” sagði hann.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira