Umfjöllun og viðtöl: Grindavík-Þór Ak 104-89 | Sigur hjá Grindavík sem mætir Tindastóli í 8-liða úrslitum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dagur Kár Jónsson er einn af lykilmönnum Grindavíkur
Dagur Kár Jónsson er einn af lykilmönnum Grindavíkur Vísir/Anton

Grindavík vann Þór 104-89 í lokaumferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Þórsarar voru inn í leikinn langt inn í fjórða leikhluta en heimamenn voru sterkari í lokin og unnu sinn fjórða sigur í röð.

Heimamenn byrjuðu betur og komust mest 11 stigum yfir í fyrri hálfleik. Þórsarar, sem voru fallnir fyrir leikinn í kvöld, bitu hins vegar frá sér og það af krafti. Þeir spiluðu svæðisvörn á Grindvíkinga og voru duglegir að hitta í körfuna.

Staðan í hálfleik var 49-47 og mikið skorað.

Það var áfram jafnræði með liðunum í þriðja leikhluta. Liðin skiptust á að halda forsystunni og spilamennskan var ekki beint til að hrópa húrra yfir.

Grindvíkingar náðu síðan áhlaupi í lok þriðja leikhluta. Þeir skoruðu 9 stig í röð eftir þriggja stiga körfur frá Ingva Guðmundssyni og Þorsteini Finnbogasyni og leiddu með 5 stigum eftir þriðja leikhluta.

En Þórsarar voru ekki hættir. Þeir komust aftur inn í leikinn og náðu forystunni í stöðunni 84-83. En þá sögðu heimamenn stopp. Þeir unnu síðustu 5 mínúturnar 21-5 og unnu að lokum 15 stiga sigur, 104-89.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir sýndu mátt sinn í lokin og þrátt fyrir gloppótta frammistöðu lengst af unnu þeir fimmtán stiga sigur. Skyttur Grindvíkinga fóru að setja skot í lokin á meðan sóknarleikur gestanna fór í frost.

Þórsarar geta samt gengið nokkuð sáttir frá í dag þó þeir séu eflaust svekktir með úrslitin. Þeir gáfu allt í leikinn og munurinn í lokin kannski full stór.

Þessir stóðu upp úr:

Dagur Kár Jónsson skoraði 27 stig hjá Grindavík og hitti úr 7 af 10 þriggja stiga skotum. Frábær skotleikur hjá Degi sem var bestur heimamanna. J´Nathan Bullock skoraði 17 stig og Ingvi Guðmundsson 15.

Hjá Þór komust þrír leikmenn yfir 10 stigin, þeir Ingvi, Marquees Oliver og D´Angelo Johnson. Oliver skoraði 22 stig, Ingvi 21 og Johnson 20. Þeir fóru fyrir sínum mönnum sem hefðu eflaust þegið meira framlag í sókninni frá öðrum.

Hvað gekk illa?

Það gefur augaleið að varnarleikur liðanna var ekki í fyrirúmi í kvöld. Þórsarar skora 89 stig á útivelli en tapa samt með 15 stigum. Það er svo sem ekkert nýtt að þeir fá á sig mörg stig og það kannski helsta áðstæðan fyrir því að þeir spila ekki í Dominos-deildinni á næsta ári.

Grindavík nær sjaldan að halda dampi í heilan leik. Frammistaðan var gloppótt í kvöld og það er eitthvað sem þeir þurfa að skoða.

Hvað gerist næst?

Grindavík mætir Tindastóli í 8-liða úrslitum og byrja á Króknum og enda þar líka ef í oddaleik fer. Þetta var líkast til enginn óskamótherji enda langt ferðalag og gríðarlega erfiður andstæðingur. Grindvíkingar hafa þó sýnt betri leik að undanförnu og eru sjálfsagt ekki óskamótherjar Skagfirðinga heldur.

Þórsarar leika í 1.deild á næsta ári. Nái þeir að halda saman hópnum og Hjalta þjálfara er ekki ólíklegt að þeir stoppi þar stutt. Hugur sterkra leikmanna leitar þó eflaust í efstu deild og það verður erfitt fyrir þá að halda þeim.

Grindavík-Þór Ak. 104-89 (27-17, 22-30, 23-20, 32-22)

Grindavík:
Dagur Kár Jónsson 26/5 fráköst/7 stoðsendingar, J'Nathan Bullock 17/6 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 15/5 fráköst/5 stoðsendingar, Þorsteinn Finnbogason 13, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/8 fráköst, Ólafur Ólafsson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 8, Kristófer Breki Gylfason 3.

Þór Ak.: Marques Oliver 22/5 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 21/7 fráköst, Nino D'Angelo Johnson 20/8 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 5, Pálmi Geir Jónsson 5, Hilmar Smári Henningsson 4, Ragnar Ágústsson 4, Bjarni Rúnar Lárusson 4, Sindri Davíðsson 3/4 fráköst, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 1.

Jóhann Þór: Frammistaðan ekkert til að hrópa húrra yfir

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. vísir/ernir

Jóhann Þór Ólafsson sagði sigurinn það sem skipti máli eftir leikinn gegn Þór frá Akureyri í kvöld en var ekkert alltof sáttur með frammistöðu síns liðs.

„Hún var gloppótt. Við vorum í vandræðum sóknarlega, þeir voru í svæðisvörn og við hittum illa. En þetta er sigur og það er það sem við tökum út úr þessu. Frammistaðan ekkert sérstök en góður sigur,“ sagði Jóhann við Vísi að leik loknum.

Grindvíkingar mæta Tindastóli í 8-liða úrslitum en Stólarnir enduðu í 3.sæti deildarinnar og Grindavík í 6.sætinu. Jóhann sagðist ekkert vera búinn að velta væntanlegri viðureign fyrir sér.

„Það er ekkert betra eða verra en neitt annað. Ég ætla bara aðeins að draga andann, fara á hestbak og ríða út um helgina. Svo tökum við stöðuna á sunnudag og gerum okkur klára fyrir það verkefni.“

Sigur Grindavíkur í kvöld var sá fjórði í röð og þeir mæta því með ágætis sjálfstraust í erfiða viðureign í 8-liða úrslitunum.

„Það er búið að vera þokkalegur sláttur á þessu síðustu vikur. Frammistaðan í kvöld er ekkert til að hrópa húrra yfir en við vitum alveg hvað við getum og vitum líka hvað við getum verið lélegir. Við þurfum að finna þetta „groove“ og þessa gleði,“ sagði Jóhann Þór við Vísi að lokum.

Hjalti: Vona að menn séu tilbúnir að vera einn vetur í 1.deild fyrir Þór Akureyri

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs. Vísir/Ernir

„Við misstum bara dampinn og þeir hittu úr skotum. Þetta voru 2-3 stig til skiptis en þeir settu stórar körfur í lokin en við ekki á móti. Ég vil hrósa mínu liði fyrir að leggja sig fram, njóta og hafa gaman í kvöld. Það var virkilega gaman að horfa á þá,“ sagði Hjalti Vilhjálmsson þjálfari Þórs frá Akureyri eftir tapið gegn Grindavík í kvöld.

Þórsarar voru fallnir fyrir leikinn en Hjalti sagði að það væri búið að vera lítið mál að gíra menn upp í þýðingarlitla leiki undanfarið.

„Stemmningin í allan vetur hefur verið jákvæð og menn að njóta þess að spila. Það hélt áfram og var í raun í allan vetur.“

Hjalti sagði ýmsilegt jákvætt hægt að taka með sér eftir veturinn þrátt fyrir fallið.

„Við erum með kornungt lið, elsti strákurinn er 27 ára og meðalaldurinn eflaust í kringum 20-21 ár og þeir fengu hellings reynslu í vetur. Þetta fór ekki eins og við vildum, við ætluðum auðvitað að halda okkur uppi en það fór ekki þannig. En það er helling sem strákarnir geta tekið með sér eftir veturinn,“ bætti Hjalti við.

Hjalti sagðist jafnframt vonast til að Þórsarar næðu að halda sama mannskap fyrir baráttuna í 1.deild.

„Ég ætla að vona að menn séu tilbúnir að vera einn vetur í 1.deild fyrir Þór Akureyri. Þetta er ungt lið og menn geta alveg farið í 1.deild og komið með alvöru lið í úrvalsdeild eftir eitt ár,“ bætti Hjalti við og sagðist hafa áhuga á að halda áfram með Þórsliðið á næsta ári.

„Ég mun ræða við stjórnina á morgun. Ég vil endilega halda áfram með þetta lið, það er efnilegt og skemmtilegt. Ég verð að leyfa fjölskyldunni að vera númer eitt en ef við getum púslað því eitthvað saman þá verð ég væntanlega áfram.“

Ingvi Þór: Verður erfitt að fara á Krókinn

Ingvi Þór Guðmundsson leikmaður Grindavíkur Vísir/Stefán

Ingvi Guðmundsson skoraði 15 stig fyrir Grindvíkinga í kvöld og hann hafði þetta að segja eftir leik.

„Þórsarar komu mjög vel stemmdir til leiks. Mér fannst við byrja ágætlega og leysa pressuna þeirra í fyrsta leikhluta. Svo í enda fyrsta leikhluta slökuðum við á og þeir komust vel inn í leikinn og héldu því til enda. Mjög vel gert hjá þeim,“ sagði Ingvi eftir leik í kvöld.

Sigur Grindavíkur var sá fjórði í röð og Ingvi sagði það gefa ágæt fyrirheit fyrir úrslitakeppnina.

„Mér finnst þetta búið að vera á uppleið en í dag vorum við frekar slakir miðað við síðustu leiki. Við rífum þetta aftur upp og höldum áfram á uppleið í úrslitakeppnina.“

Tindastóll verður mótherji Grindavíkur í úrslitakeppninni og því erfitt ferðalag framundan hjá Suðurnesjamönnum.

„Það er ekkert hægt að segja um neina óskamótherja í úrslitakeppni. Að fara á Krókinn er erfitt en gaman í leiðinni þannig að það verður krefjandi og skemmtilegt verkefni.“

Ingvi Rafn: Ég er samningslaus og tek stöðuna fljótlega

Ingvi Rafn Ingvarsson skoraði 21 stig fyrir Þór frá Akureyri í kvöld. Vísir/Ernir

Ingvi Rafn Ingvarsson leikmaður Þórs skoraði 21 stig í tapleiknum gegn Grindavík í kvöld.

„Við gáfum allt í þetta og þó að leikurinn hafi ekki skipt miklu máli þá lögðum við okkur fram og börðumst og það er það sem er jákvætt,“ sagði Ingvi við Vísi eftir leik.

„Við höfum verið í basli sóknarlega í síðustu leikjum en loksins duttum við í gang þar. Við erum að fá á okkur mikið af stigum og það er ekkert nýtt. Þetta var allt í lagi en óþarflega stórt tap í lokin,“ bætti hann við en Þórsarar leiddu með einu stigi þegar um fimm mínútur voru eftir.

Ingvi sagði ekkert ráðið með næsta tímabil hvort hann tæki slaginn með Þórsurum í 1.deildinni en það eru eflaust nokkur lið í Dominos-deildinni sem líta hýru auga til þessa sterka leikmanns.

„Það er óljóst. Ég er samningslaus og tek stöðuna fljótlega. Maður vill alltaf spila í efstu deild og hvort maður taki eitt tímabil í 1.deild til að koma okkur upp aftur, það verður bara að koma í ljós.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.