Umfjöllun og viðtöl: Haukar - KA/Þór 23-21 | Haukar mæta Fram í úrslitunum

Benedikt Grétarsson skrifar
Guðrún Erla Bjarnadóttir, leikmaður Hauka.
Guðrún Erla Bjarnadóttir, leikmaður Hauka. vísir/ernir

Haukar mæta Fram í úrslitaleik Coca-Cola bikarkeppni HSÍ næst komandi laugardag. Haukar mættu KA/Þór í seinni undanúrslitaleik keppninnar í Laugardalshöll í kvöld og höfðu betur 23-21 í hörkuleik. Staðan í hálfleik var 13-8, Haukum í vil.

Markahæst í liði Hauka var Berta Rut Harðardóttir með 8 mörk og Elin Jóna Þorsteinsdóttir varði 13 skot í markinu. Markahæst í liði KA/Þór var Martha Hermannsdóttir með 6 mörk og Sunna Guðrún Pétursdóttir varði 3 skot.

Fyrri hálfleikur fór nákvæmlega af stað eins og flestir bjuggust við. Haukar virtust einu númeri of stórir fyrir KA/Þór og komust í 7-3. Á þessum tímapunkti var fátt sem benti til endurkomu norðankvenna en það átti eftir að breytast.

Fínn varnarleikur skilaði hröðum upphlaupum og áður en furðu lostnar Haukakonur vissu af, var staðan orðin 8-8 og mikil stemming í stúkunni hjá fjölmörgum áhorfendum sem studdu KA/Þór.

Þá virtist draga aðeins af lykilmönnum KA/Þór og nú voru það Haukar sem gengu á lagið. Síðustu fimm mörk hálfleiksins tilheyrðu Haukum og staðan því að loknum 30 mínútum, 13-8 fyrir Hauka.

KA/Þór var ekkert að henda inn handklæðinu og fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiks tilheyrðu þeim. Haukar virkuðu stressaðir og norðankonur börðust eins og ljón allan tímann. Þessi barátta kom muninum niður í eitt mark í stöðunni 20-19 þegar um sex mínútur voru eftir og allt á suðupunkti.

Olísdeildarliðið hélt þó haus á lokamínútunum og landaði ansi torsóttum sigri að lokum.

Af hverju unnu Haukar leikinn?
Haukar fengu markvörslu á mikilvægum augnablikum en KA/Þór ekki. Það er einfaldlega of stór biti að kyngja í nútíma handbolta að fá aðeins þrjú skot varin í heilum leik og þessi staðreynd vegur þungt þegar leikurinn er gerður upp.

Hverjar stóðu upp úr?
Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði vel í marki Hauka og reyndist KA/Þór erfið, ekki síst í dauðafærum í fyrri hálfleik. Erla Eiríksdóttir nýtti færin sín í hægra horninu mjög vel og Ragnheiður Sveinsdóttir var sterk á línunni.

Ásdís Guðmundsdóttir var geysisterk á línunni hjá KA/Þór og reyndist Haukavörninni erfið. Kara Rún Árnadóttir var mjög örugg í sínum skotum í vinstra horninu og Martha Hermannsdóttir öryggið uppmálað á vítalínunni.

Hvað gekk illa?
Sóknarleikur beggja liða var ekki upp á 10. Það má að sjálfsögðu að miklu leyti skrifa á sterkan varnarleik beggja liða en einnig voru leikmenn að henda boltanum afar klaufalega í hendurnar á andstæðingnum.

Hvað gerist næst?
Haukakonur fá tækifæri til að landa bikarmeistaratitlinum, í fyrsta sinn síðan árið 2007. Það eru þó verðugir andstæðingar sem bíða þeirra í úrslitaleiknum en þar mæta Hafnfirðingar Íslandsmeisturum Fram. Haukar hafa leikið vel gegn Fram í vetur og eiga ágæta möguleika í þessum leik.

KA/Þór heldur áfram vegferð sinni upp í Olísdeildina en liðið situr í efsta sæti Grill 66 deildarinnar. Norðankonur geta þrátt fyrir tapið borið höfuðið hátt.

Elín Jóna: Elli er alltaf á suðupunkti
„Þetta var erfitt. Haukar hafa verið í undanúrslitum þrjú ár í röð og fallið úr leik en við erum a.m.k. komnar í úrslitaleikinn núna,“ sagði markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir eftir sigur Hauka gegn KA/Þór.

Var KA/Þór eitthvað að koma Haukum á óvart með sinni frammistöðu í kvöld?

„Við vissum að þetta yrði erfitt. KA/Þór er með mjög gott lið. Þarna eru góðar skyttur, mikill kraftur í fótunum á þeim og spila góða vörn. Þær komu okkur því ekkert á óvart en við þurfum samt að vera sterkari og spila bara okkar leik.“

En var byrjað að fara um Elínu þegar KA/Þór minnkaði muninn og Elías Már Halldórsson var við það að springa á hliðarlínunni?

„Elli er alltaf á suðupunkti á hliðarlínunni, það skiptir engu máli hvaða leikur er í gangi,“ sagði Elín Jóna hlæjandi. En þarf Haukaliðið ekki að leika betur í sjálfum úrslitaleiknum til að eiga séns gegn Fram?

„Jú, alveg töluvert betur. Fram spilar hraðan leik og við þurfum að gíra okkur undir það. Þær eru gríðarlega sterkar og við þurfum að eiga toppleik til að vinna bikarinn,“ sagði Elín Jóna að lokum.

Martha: Vinnum efstu deild á næsta ári
Martha Hermannsdóttir skoraði sex mörk í 23-21 tapi KA/Þór gegn Haukum í undanúrslitum Coca-Cola bikarkepnni HSÍ. Martha er þó sammála blaðamanni að norðankonur geta gengið stoltar frá þessum leik.

„Jú algjörlega. Við ætluðum samt að vinna sko! Það er alltaf jafn erfitt að tapa og við erum ekkert sáttar þó að við höfum „bara“ tapað með tveimur mörkum. En við vorum auðvitað litla liðið í þessari viðureign að spila við Olísdeildarlið og það er að sjálfsögðu styrkleikamunur á þessum deildum.“

„Þetta var leikur allan tímann. Við keyrðum á þær allan tímann og ég held að áhorfendur hafi verið sáttir með góðan leik hjá okkur,“ sagði Martha.

Markvarslan var ekki góð hjá KA/Þór í kvöld og það reyndist dýrt.

„Já, það var kannski munurinn í kvöld. Varnir og sóknir liðanna voru svipaðar en það munaði kannski aðeins í markvörslunni hjá liðunum. Það er samt hægt að telja fullt af hlutum. Ég skaut tvisvar sinnum framhjá og þannig getum við haldið áfram. Það þýðir ekkert að taka eitthvað eitt atriði út fyrir jöfnuna.“

KA/Þór er í góðri stöðu með að komast upp í efstu deild í vor.

„Það er úrslitaleikur næstu helgi gegn HK og með sigri þá förum við beint upp í Olísdeildina. Svo bara æfum við eins og brjálæðingar í allt sumar og vinnum svo bara efstu deildina á næsta ári!“

En er reynsluboltinn nokkuð að hætta eftir þetta tímabil?

„Nei nei, maður verður tapsárari með hverju árinu og ég verð áfram með liðinu. Ætli ég komi ekki í hjólastól inn á völlinn eftir 3-4 ár,“ sagði Martha brosandi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.