Viðskipti innlent

Arion banki mátti ekki krefja viðskiptavin sem hafði notið frestun greiðslna um dráttarvexti

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómur í málinu féll í Hæstarétti í dag.
Dómur í málinu féll í Hæstarétti í dag. Jóhann K. Jóhannsson
Arion banka var óheimilt að krefja viðskiptavin sinn um dráttarvexti á ógreiddar eftirstöðvar veðskuldabréfs.

Kristinn Þröstur Reynisson höfðaði mál gegn Arionbanka vegna dráttarvaxta sem bankinn hafði lagt á tvö fasteignaveðláns á því tímabili sem Kristinn hafði notið frestunar greiðsla samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði fallist á kröfu Kristins og staðfesti Hæstiréttur þann dóm í dag.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt lögum væri lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum meðan á frestun greiðslna stæði.

Þá skyldi samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu ekki reikna dráttarvexti á kröfur á þann tíma sem greiðsludráttur væri ef skuldari héldi af lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar og talið að svo háttað til um hagi Kristins það tímabil sem um ræddi.

Þá kom fram að þar sem krafa um dráttarvexti yrði aðeins höfð uppi á grundvelli lögbundinni heimilda væri löggjafanum að sama skapi fært að setja slíkum heimildum þær skorður sem kæmi fram í lögum um vexti og verðtryggingu og að sú tilhögun færi ekki í bága við 72. grein stjórnarskrárinnar.

Var því krafa Kristins tekin til greina í Hæstarétti og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur því óhaggaður. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×