Innlent

Kolbrún og Halla í forsætisráðuneytið

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kolbrún Halldórsdóttir og Halla Gunnarsdóttir hafa verið ráðnar til starfa í forsætisráðuneytinu.
Kolbrún Halldórsdóttir og Halla Gunnarsdóttir hafa verið ráðnar til starfa í forsætisráðuneytinu. Vísir/Stefán/Vilhelm

Halla Gunnarsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir hafa verið ráðnar til starfa í forsætisráðuneytinu. Halla sem ráðgjafi forsætisráðherra og Kolbrún sem verkefnastjóri í tengslum við hátíðahöld 1. desember 2018 vegna 100 ára fullveldis Íslands.

Halla Gunnarsdóttir mun leiða starf stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir að meginhlutverk hópsins sé að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi.

Halla starfaði sem aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra og heilbrigðisráðherra á árunum 2009-2013. Þar leiddi hún meðal annars samráð um meðferð nauðgunarmála og hafði frumkvæði að vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi. Hún starfaði áður sem skrifstofustjóri hjá breska Kvennalistanum (The Women’s Equality Party) þar sem hún leiddi stefnumótun samtakanna. Þá starfaði Halla á alþjóðlegri lögmannsstofu í Lundúnum, McAllister-Olivarius, sem sérhæfir sig í málum sem lúta að kynbundinni áreitni á vinnustöðum, innan menntastofnana og á Internetinu.

Kolbrún Halldórsdóttir var þingmaður Vinstri grænna á árunum 1999-2009. Þar starfaði hún í mennta- og menningarmálanefnd, umhverfisnefnd og allsherjarnefnd. Hún var umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrri hluta árs 2009.

Síðustu átta ár hefur Kolbrún gegnt embætti forseta Bandalags íslenskra listamanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.