Erlent

Segja 21 hafa orðið fyrir áhrifum taugaeitursins

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérfræðingar hafa reist tjald í kringum bekkinn þar sem feðginin fundust meðvitundarlaus.
Sérfræðingar hafa reist tjald í kringum bekkinn þar sem feðginin fundust meðvitundarlaus. Vísir/AFP

Lögreglan í Bretlandi segir að 21 aðili hafi orðið fyrir áhrifum taugaeiturs sem notað var til að reyna að myrða rússneskan njósnara þar í landi um helgina. Einungis þrír eru þó enn á sjúkrahúsi. Það eru njósnarinn Sergei Skripal, dóttir hans Yulia og lögregluþjónninn Nick Bailey.

Feðginin eru enn í alvarlegu ástandi en Bailey er sagður vera á batavegi.

Vísir/GraphicNews

Rannsakendur eru sagðir vinna hörðum höndum að því að finna út hvaðan taugaeitrið sem notað var kemur og hvort meira af því sé í Bretlandi. Sérfræðingar segja líklegast að efni sem þessi séu framleidd af ríkjum og hafa spjótin beinst að Rússlandi.

Sjá einnig: Skripal og dóttir hans urðu fyrir taugaeitri

Sergei Skripal var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa útvegað leyniþjónustu Bretlands nöfn útsendara Rússa í Evrópu. Hann var frelsaður árið 2010 þegar Bandaríkin og Rússland skiptust á njósnurum sem höfðu verið handsamaðir. Rússar slepptu fjórum njósnurum og Bandaríkin tíu.

Skripal og dóttir hans fundust meðvitundarlaus á bekk á sunnudagskvöldið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eitur er byrlað fyrir Rússneskum aðila í Bretlandi og gruna yfirvöld Bretlands þegar að yfirvöld Rússlands hafi komið að árásinni. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, gaf í skyn í gær að England myndi mögulega ekki taka þátt í HM í Rússlandi í sumar vegna málsins.

Athygli vakti í dag þegar rússneskur fréttaþulur sagði áhorfendum sínum að „svikarar deyi ungir“.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.